150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda og hælisleitenda.

[15:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina máli sínu til mín sem formanns Framsóknarflokksins þó að það varði ekki málaflokka mína sem ráðherra. Nú veit þingheimur sjálfsagt, og þeir sem hlusta, að skoðanir Viðreisnar og Framsóknarflokksins eru mjög ólíkar í mörgum málum. Þess vegna höfum við hv. þingmaður stundum tekist á í þessum stóli. Ég skil til að mynda alls ekki hvernig hv. þingmaður getur dregið ráðuneytisstjóra í öðru ráðuneyti að borðinu til að tala um við formann Framsóknarflokksins. Ég get ekki svarað fyrir það og ég veit að hv. þingmaður átti samtal við ráðherrann um þessi ummæli á mánudaginn.

Ég get hins vegar sagt frá því að Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð haldið vel utan um alla þá sem minna mega sín í samfélaginu, ekki síst innflytjendur. Við höfum staðið duglega á bak við slík mál. Við erum frjálslyndur mannúðarflokkur. Það er kannski eina taugin á milli Framsóknarflokksins og Viðreisnar, þ.e. þegar kemur að slíkum málum. Í allflestum öðrum málum eru þessir tveir flokkar dálítið ólíkir.

Þingmenn Viðreisnar tala iðulega niður til Framsóknarflokksins úr þessum ræðustól og nota þau orð að hér séu þrír Framsóknarflokkar við völd. Ég tel það náttúrlega hrós! Í stefnu okkar Framsóknarmanna er manngildi ofar auðgildi. Það er grunngildi flokksins hvernig við höfum haldið utan um þá sem minna mega sín í öllu samfélaginu, hvernig við höfum tekið utan um hinsegin fólk, verið jafnréttissinnaðasti flokkur landsins og fleira í þeim dúr. Það er augljóst að okkur er ekki sama. Sá málaflokkur sem hér hefur verið til umfjöllunar í dag heyrir hins vegar ekki undir mig eða þau ráðuneyti sem við erum með en við trúum því og treystum (Forseti hringir.) að þeim reglum sem við setjum á Alþingi sé fylgt. Það vekur hins vegar athygli þegar einstök mál koma upp eins og gerðist í gær og ég held að við höfum öll fengið svolítinn verk í hjartað yfir því.