152. löggjafarþing — 28. fundur,  27. jan. 2022.

starf Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laga nr. 92/2019.

162. mál
[13:46]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa góðu yfirferð. Þetta er fróðleg skýrsla. Þarna er margt mikilvægt dregið fram en við erum auðvitað bara að tala um reynsluna af tveggja ára fyrirkomulagi. Það hlýtur að vera mikilvægt að áfram fari fram einhvers konar endurmat á þessu fyrirkomulagi með reglulegu millibili. Ég býst við að hæstv. forsætisráðherra sé sammála mér um það.

Ég ætlaði að spyrja hvað hæstv. forsætisráðherra sæi sjálf helst fyrir sér varðandi hina óskýru verkaskiptingu milli nefndanna, bæði milli nefndanna innbyrðis og milli hverrar nefndar og svo hinnar almennu stjórnsýslu Seðlabankans. Það kom svo sem fram í ræðu hennar að hún sæi fyrir sér einhvers konar samstarf milli efnahags- og viðskiptanefndar og hennar ráðuneytis. Ég er samt forvitinn að vita, þótt ekki sé frumvarp í farvatninu, alla vega ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi einhverja sýn á það hvernig best færi á því að skýra betur þessa verkaskiptingu, t.d. þegar kemur að notkun fjárstreymistækisins, kallað innflæðishöftin, til að tempra skammtímafjármagn og sporna gegn spákaupmennsku. Það kemur fram í þessari úttekt að beiting þessa tækis sé hvorki á hendi peningastefnunefndar né fjármálastöðugleikanefndar. Það væri kannski fróðlegt að heyra aðeins sýn hæstv. forsætisráðherra á þetta.