Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög glaður að fá að mæla hér fyrir þingsályktunartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni. Með mér eru aðrir 23 þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi nema einum, það er enginn frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði en við skulum sjá hvernig það fer í meðförum þingsins á málinu.

Ég vil bara byrja á að lesa tillöguna sjálfa sem er frekar stutt:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi. Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2023.“

Þarna er heilbrigðisráðherra með öðrum orðum falið að hafa samstarf um það að liðka fyrir þannig að hér á landi geti rannsóknir og tilraunir farið fram um notkun á þessu hugvíkkandi efni, sílósíbíni, sem er nú þegar komið í mjög mikla notkun hér á landi. Þetta efni er unnið úr virku efni úr vissum tegundum af sveppum og það hefur verið notað í þúsundir ára og virkni þess verið þekkt lengi. Um tíma var hætt að nota þetta efni en undanfarin ár hefur vitneskjan um áhrif efnisins á geðsjúkdóma og aðra fíknisjúkdóma og kvilla fengið aukna athygli og því hefur notkunin á þessu efni aukist mjög mikið. Það er augljóst að hér á landi hefur þessi notkun vaxið mikið með góðum árangri fyrir flesta þá sem hafa prófað það. Ég held því, og við flutningsmenn erum sammála um það, að það sé mikilvægt — þegar um er að ræða efni sem gefur góðar vísbendingar um árangur og fólk er farið að nýta sér, þó að það sé ólöglegt — að bregðast við, gera skýra umgjörð og fá að vita meira. Margir virtir háskólar, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, eru farnir að rannsaka virkni efnisins og annað slíkt, farnir að setja í það mikla fjármuni og tíma með flottum rannsakendum. Lyfjafyrirtækin eru líka farin að skoða þetta og búin að fara í gegnum annan fasa af rannsókn og eru að fara af stað með þriðja fasa af rannsóknum. Það væri náttúrlega frábært ef Ísland gæti tekið þátt í slíkri rannsókn, það gæti hjálpað okkur mikið. Það er þekkt að hér á landi sé gott að gera klínískar rannsóknir og rannsóknir á notkun efna og lyfja og öðru slíku, af því að samsetningin, smæð þjóðarinnar, nálægð fræðimanna og annað slíkt, er slík að það hefur gefið góða raun. Því setjum við markmiðið skýrt fram.

Markmið tillögunnar er að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni, en alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að umrædd efni geti valdið straumhvörfum í meðhöndlun geðraskana. Markmið tillögunnar er jafnframt að rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningaskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu.

Það er einmitt eitt af markmiðunum með tillögunni að koma rannsóknunum af stað og gera þessa umgjörð svo að notkunin verði ekki sjálfsprottin heldur frekar undir handleiðslu fagfólks. Það er mjög mikilvægt af því að það geta verið alvarlegar aukaverkanir af þessu efni eins og öllum öðrum efnum sem eru notuð í geðlækningaskyni og því skiptir miklu máli að umgjörðin sé skýr og vitneskjan sé sem mest.

Hugvíkkandi efni á borð við sílósíbín, sem er virkt efni í um 250 mismunandi sveppategundum, falla í dag undir skilgreiningu á 1. mgr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni og er varsla slíkra efna þar af leiðandi óheimil. Síðustu ár hefur rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sér í lagi sílósíbíni, fleygt fram samhliða aukinni notkun efnanna. Bandarísk rannsókn, sem unnin var af hópi þarlendra fræðimanna, m.a. við Harvard-háskóla, og birt á National Library of Medicine árið 2021 bendir til þess að möguleikar sílósíbíns í geðlækningaskyni séu miklir, fordómar gagnvart notkun efnisins séu þó töluverðir og brýnt að vinna bug á þeim svo að unnt sé að stunda frekari og útbreiddari rannsóknir á efninu. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld skilgreint sílósíbín sem ólöglegt ávana- og fíkniefni frá árinu 1971 en notkun efnisins var útbreidd vestanhafs á sjöunda áratugnum.

Rannsókn sem gerð var af fræðimönnum við læknadeild Johns Hopkins háskóla bendir til þess að hægt sé að draga verulega úr alvarlegum einkennum þunglyndis með notkun sílósíbíns. Rannsókn fræðimanna við New York háskóla bendir og til þess að notkun efnisins við meðferð vegna áfallastreituröskunar og annarrar úrvinnslu áfalla geti verið gagnleg. Þá benda niðurstöður klínískrar rannsóknar, sem greint var frá í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna, fyrr á þessu ári til að sílósíbín skili árangri við að hjálpa ofdrykkjufólki að draga úr áfengisneyslu eða hætta alfarið. Rannsóknir á notkun sílósíbíns við líknandi meðferð eða lífslokameðferð hafa einnig verið fyrirferðarmiklar á síðustu árum. Alls tóku 10 lönd og um 230 einstaklingar þátt í öðrum fasa rannsóknar breska lyfjafyrirtækisins COMPASS Pathways á meðferð við þrálátu þunglyndi með sílósíbíni, þeirra á meðal Bretland, Danmörk og Þýskaland. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sílósíbín sé hvort tveggja öruggt og skilvirkt í geðlækningaskyni, að því gefnu að meðferð sé stýrt og fylgt eftir af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki. Það skiptir mjög miklu máli og er ein af ástæðum þess að mikilvægt er að bregðast hratt við hér á landi til að tryggja að meðferðinni sé stýrt og fylgt eftir af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki. Áætlað er að þriðji fasi sömu rannsókna hefjist veturinn 2022–2023 í a.m.k. 15 löndum og gert er ráð fyrir þátttöku allt að 700 einstaklinga. Ég kom inn á það áðan að það væri mikilvægt að Ísland gæti orðið þátttakandi þarna, og ég veit að það er í skoðun.

Í fréttaskýringaþætti Kveiks, sem sýndur var á Ríkisútvarpinu í febrúar 2022, var fjallað um þá möguleika sem felast í notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni. Rætt var við dr. David Nutt, prófessor í taugageðlyfjafræði við Imperial-háskólann í Lundúnum, en Nutt hefur ásamt fleirum stundað leiðandi rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni í tvo áratugi. Nutt telur notkun hugvíkkandi efna eiga eftir að bylta geðlækningum á næstu áratugum séu efnin notuð rétt. Þá bendir Nutt á að sílósíbín hafi verið notað árþúsundum saman og að fengin reynsla sýni að efnið sé öruggt til notkunar.

Í umfjöllun Kveiks var einnig rætt við Víði Sigrúnarson, geðlækni á sjúkrahúsinu Vogi, sem bendir á að sílósíbín sé ekki ávanabindandi og því sé hætta á að einstaklingar ánetjist efninu takmörkuð. Víðir segir efnið þó ekki hættulaust, sér í lagi ef þess er neytt samhliða annars konar efnum. Einstaklingar leiti þó ekki á Vog vegna neyslu sílósíbíns eingöngu. Þá varar Víðir við neyslu sílósíbíns án samráðs við fagfólk, enda geti efnið til að mynda leitt til þess að einstaklingar með undirliggjandi eða ógreinda geðsjúkdóma fari í geðrof við eða í kjölfar neyslu sílósíbíns. Það á náttúrlega einnig við um önnur lyf sem við erum að nota í geðlækningaskyni og öðru þannig að þetta skiptir allt máli.

Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að rannsóknir á notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni verði alfarið framkvæmdar á vegum fagfólks og að kannað verði til þrautar hvort efnið geti valdið þeim straumhvörfum í geðlækningum sem ýmsir fræðimenn hafa boðað. Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella. Þetta er líka eitt af því sem drífur okkur flutningsmenn áfram í þessu, þ.e. eftirvæntingin og þörfin og vonin um að hér sé eitthvað á ferðinni sem geti tekið okkur stórt skref áfram til að styðja við geðheilsu fólks.

Þörfin er mikil. Áskoranir eru miklar og því verðum við, þegar við fáum svona jákvæðar vísbendingar, að bregðast við og gera hvað við getum til að ná stórum skrefum fram á við. Við teljum að það sé mikilvægt hér á landi, bæði af því að Ísland getur hentað vel til svona rannsókna og framþróunar í þessu og líka vegna þess hve margir eru farnir að nota þetta hér á landi. Ég get upplýst það hér að eftir að málið kom fram hef ég fengið fjöldann allan af sögum frá einstaklingum sem lýsa árangri sínum vegna notkunar á sílósíbíni. Það eru einstaklingar sem eru að gera það án þess að efnið sé komið inn í heilbrigðiskerfið. Þeir sjá árangurinn og það sýnir okkur að þetta er að hjálpa fjölda fólks út úr kvillum og áskorunum sem önnur lyf dugðu ekki til og tengjast öllu því sem ég þuldi upp áðan, hvort sem það eru fíknisjúkdómar eða langt gengið þunglyndi eða önnur geðræn vandamál. Það hefur líka heyrst að þeir sem vita minna um efnið eru farnir að bjóða þjónustu sína sem getur verið hættulegt eins og hefur komið fram. Því skiptir miklu máli að ná hratt utan um þessa umgjörð, taka þessu opnum örmum, ekki vera hrædd við þessa umræðu.

Geðheilbrigðismál eru ein stærsta áskorunin okkar og eru eitt mikilvægasta mál sem við tökumst á við hér á Alþingi. Því fagna ég því hve margir þingmenn eru sammála um að vinna þessu máli lið. Ég trúi því að þverpólitískt getum við tekist á við þessi mál saman og náð árangri fyrir okkar samfélag. Ég vil þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa lagt málinu lið og legg til að málið fari áfram til hv. velferðarnefndar sem ég trúi að vinni málið hratt og vel. Vonandi náum við að afgreiða málið fyrir jól en við gefum ráðherra tíma til vorþings 2023 til að vinna að þeim undirbúningi sem þarf til að koma þessu af stað. Notkunin er mikil, eftirvæntingin er mikil og því liggur okkur á.