Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:26]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Forseti. Ég ætlaði fyrst og fremst að sefa áhyggjur Gísla Rafns Ólafssonar hvað varðar geymslu á matvælunum sem við erum að hefja stórfellda framleiðslu á til innlendra nota nú og síðar og jafnvel til útflutnings. Þegar ég var nýbyrjaður í tónlistarbransanum — sem ég mátti ekki hefja störf við fyrr en að afloknu stúdentsprófi, það var stífur agi á heimilinu, ég fékk eitt ár áður en ég átti að hefja læknisfræðinámið — höguðu örlögin því þannig að ég endaði í Stóra-Bretlandi 19 vetra. Ég var með breskan trymbil og hann var kærður til stéttarfélagsins og þar með var hópurinn ekki starfhæfur og fór út. Þá var stundum þröngt í búi. En til hátíðabrigða var jafnan farið á hamborgarastaðinn Wimpy´s sem þá var aðalhamborgarakeðjan í Lundúnum. Þess er að minnast hve þetta voru ljúffengar máltíðir. Þetta var á miðjum áttunda áratugnum, um það leyti sem margir hér inni voru að verða að veruleika, fara af hugmyndastigi yfir á holdlega sviðið, jarðneska sviðið. Þetta eru sem sagt í skýru minni einhverjar bestu máltíðir táningsáranna. 20 árum síðar upplýstist það að Wimpy´s-hamborgararnir og Wimpy´s-keðjan öll hafði verið stofnsett með góðum hagfelldum samningum við breska herinn um kaup á tugmilljónum hamborgara úr seinni heimsstyrjöldinni. Nokkrir áratugir voru liðnir frá því að þessir hamborgarar höfðu verið frystir og var þeim síðan sporðrennt af íslenskum tónlistarmönnum á Wimpy´s-veitingahúsunum í Lundúnum og rísa upp í minningunni sem eitthvað það ljúffengasta sem maður lagði sér til munns. Ég vona að Gísli Rafn Ólafsson geti slakað á og sofið áhyggjulaus eftir þessar fréttir.

Ég ætla bara að ítreka það sem hann vék að og við eigum að hafa hugfast. Við höfum af mikilli lánssemi fengið að byggja eyju sem býr yfir þeim miklu gæðum sem raun ber vitni; græna orkan margnefnda, blómlegu sveitirnar, sem sum okkar hafa fengið að kynnast og búa í. Ég held að ímynd okkar sem þjóðar hreinnar, heilnæmrar, hollrar fæðu sé okkur afar dýrmæt, bæði sem áfangastaðar og sem útflutningsþjóðar. Þess vegna ætla ég enn og aftur að segja: Hugum vel að umhverfismálunum og hugum vel að ímyndarmálunum með þeim hætti sem við viljum gera hér eftir sem hingað til og látum ekki neitt líðast sem getur dregið úr trúverðugleika okkar eða skaðað ímynd okkar sem siðaðrar framleiðsluþjóðar á heilbrigðum og hollum matvælum.