138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur auðvitað fram í andsvörum og í umræðum og á örugglega eftir að gera í allan dag að þetta er erfiður flór að moka, en það verður að moka hann. Það er það sem mér finnst alltaf vanta (Gripið fram í.) inn í umræðuna, það er alltaf verið að tala um að það sé hægt að láta þetta hverfa (Gripið fram í.) og vonandi koma þá tillögur um það í dag hvernig það er hægt.

Ég svara spurningum hv. þm. Eygló Harðardóttur með því að biðja hana um að taka fyrir í máli sínu síðar hvort hún telji okkur betur komin með það að semja ekki um Icesave og fara með neyðarlögin fyrir dómstóla, að þá stöndum við betur en annars. Það er eiginlega það sem málið snýst um. Öll þessi umræða um neyðarlögin fór fram í sumar og ekkert nýtt hefur komið fram í haust. Ég taldi ekki að minnisleysi þingmanna væri það mikið að við þyrftum að endurtaka þá umræðu alla að nýju.