138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er enn eitt af þeim óvissumálum sem við stöndum frammi fyrir. Kannski eru ekki miklar líkur á því að neyðarlögin haldi ekki en vissulega er það samt áhyggjuefni og æskilegt væri að beðið væri álits þessa fyrsta dóms í því máli. Það mun verða látið reyna á neyðarlögin oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Skellurinn sem kæmi af því ef þau yrðu dæmd ólögleg yrði náttúrlega stærri en menn geta reiknað til fulls. Að mínu áliti er þjóðarbúið komið í greiðsluþrot, það á bara eftir að viðurkenna það. Að vísu má, eins og ég sagði áðan, lengi skattpína fólk en það mun flytja ef svo heldur áfram sem horfir.

Með hliðsjón af því hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur í rauninni komist upp með að stjórna miklu á Íslandi þykir mér ekki ólíklegt að hér sé um að ræða fyrst og fremst skilaboð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til íslenskra dómstóla um að dæma rétt í þessu máli. Þeir hafa sýnt að þeir svífast einskis í að ná fram sínum álitum og eru einfaldlega að benda á að ef dæmt er vitlaust í þessu máli muni hlutirnir fara á enn verri veg. 600 milljarðar í viðbót við það sem nú er komið breyta að mínu mati ekki sérlega miklu, við erum í vonlausri stöðu og það mun einfaldlega verða enn vonlausara. Það er ekkert öðruvísi.