145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:46]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég upplýsi hann um að efnahags- og viðskiptanefnd tók þá ákvörðun í dag að fjalla um umsögn Indefence um mat á undanþágubeiðnum slitabúa og óska eftir því að þeir kæmu til fundar við nefndina og skýri fyrir nefndinni hvernig Indefence kemst að þessum niðurstöðum. Í framhaldinu á að fá ráðuneytið, og Seðlabankann eftir atvikum, til þess að svara því eða koma með útskýringar.

Ég hefði í framhaldinu, fyrst ég er kominn hingað, viljað beina spurningu til hv. þingmanns: Er hann ekki sammála því að markmið þessara aðgerða, þ.e. þessara stöðugleikaframlaga, sé að koma í veg fyrir að hér verði óstöðugleiki, og koma í veg fyrir að lífskjör rýrni, að sjá til þess að hér verði greiðslujöfnuður í lagi til frambúðar? Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur skoðað blað frá Seðlabanka Íslands frá 27. október þar sem farið er yfir fjórar sviðsmyndir sem ná til ársins 2022 og væntanlega lengra, farið er yfir mismunandi mögulegar sviðsmyndir. Í fyrsta lagi eru skoðuð áhrif rýrnunar viðskiptakjara, í öðru lagi eru skoðuð áhrif aukins útflæðis fjármagns, í þriðja lagi eru skoðuð áhrif 5% breytingar á gengi krónunnar og í fjórða lagi eru sýnd áhrif breytinga á erlendum vöxtum til hins verra.

Í kynningu Seðlabankans er farið yfir ýmsar sviðsmyndir sem eru óhagfelldar, en samt kemst hann að þeirri niðurstöðu að í engri þessara sviðsmynda verði lífskjör óásættanleg hér eða að þeim hraki, að greiðslujöfnuði sé ógnað eða þá fjármálalegum stöðugleika. (HHj: Icesave …?) Hefur hv. þingmaður kynnt sér þessi gögn?