148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

breikkun Vesturlandsvegar.

[15:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör sem voru kafloðin. Mér finnst enn ekki liggja fyrir hvort þessi vegur á Kjalarnesi verði í næstu samgönguáætlun. Ég vil þess vegna ítreka spurningu mína um hvort það verði.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að fjármálaáætlun þarf að liggja fyrir áður en samgönguáætlun er gerð. En ég get ekki ímyndað mér að þessari ríkisstjórn sé fjár vant því að hún er til í að selja útlendingum banka á spottprís, tilbúin að afsala sér og okkur Íslendingum milljarðatugum með því að nýta ekki forkaupsrétt Íslendinga á Arion banka. Ríkisstjórn sem fer svona fram hefur nóg af peningum. Það er alveg klárt. Ég geri ráð fyrir að það verði ekki fjár vant í þessa framkvæmd og spyr því hæstv. ráðherra aftur hvort hann ætli sér að koma þessum vegamótum á í næstu samgönguáætlun.