138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með möppuna sem lögð var fram á fyrsta fundi sem skýrði nánast öll þau gögn sem hafa verið lögð fram í málinu og minnisblöð frá nokkrum þeirra funda sem haldnir voru í tengslum við þetta mál. Þeir aðilar sem kynntu samningana í upphafi, stór hópur sem talinn er upp í nefndaráliti, allir fulltrúar ráðuneytanna sem fóru í þessar viðræður og að hluta til þeir lögfræðingar sem höfðu komið að því að semja frumvarpið í seinni lotunni, gerðu nákvæmlega grein fyrir því hvað hefði átt sér stað. Mér er ekki kunnugt um að óskað hefði verið eftir því að fá afrit af hugsanlega öllum tölvupóstum sem hefðu gengið á milli. Það kom fram að það voru ekki síður minnisblöð á öllum fundum þannig að ég hélt að þessu hefði verið svarað fullkomlega á þeim fundi og það var ekki gengið formlega eftir því með neinum hætti í fjárlaganefnd að fá fleiri gögn um þetta, enda kom ekkert fram þar sem gerði málið á einn eða annan hátt tortryggilegt eða gæfi forsendur til að fara í þann leik að kalla eftir að skoða (Forseti hringir.) hugsanlega samskipti í ráðuneytunum.