138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í þessa umræðu í dag. Eitt af mínum markmiðum í pólitík er að koma málefnum fatlaðra á dagskrá. Nú eru átta hv. þingmenn búnir að ræða hver um sig í a.m.k. tvær mínútur um málaflokkinn og ég trúi því og treysti að við höldum áfram að fjalla um þetta mikilsverða mál og tökum þetta málefni upp á okkar arma. Við sem búum ekki við fötlun berum ábyrgð á því að halda þessum sjónarmiðum á lofti og vinna að því að fá aukna fjármuni í þetta verkefni. Vissulega er kreppa í landinu en þetta er verkefni sem við skulum öll taka höndum saman um að efla.

Það urðu mér reyndar ákveðin vonbrigði að þingmenn Hreyfingarinnar hafa ekki séð ástæðu til að blanda sér í þessa umræðu. Þeir hafa gagnrýnt mjög fjórflokkinn en það er þó alla vega sannað hér í dag að þessir ágætu hv. þingmenn fjórflokksins hafa áhuga á þessu málefni. Rétt er að það komi fram.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og er ánægð að heyra að það er verið að skoða að gera bragarbót á búsetuúrræðum fatlaðra. Ég er ánægð með að heyra það vegna þess að það er grundvallaratriði í að vinna þessum hugmyndum fylgi meðal t.d. þeirra sem búa úti á landsbyggðinni. Ég trúi því og treysti að allt kapp verði lagt á að vinna bug á því að fólk þurfi í stríðum straumum að flytjast til höfuðborgarsvæðisins til þess að finna búsetuúrræði við hæfi.

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að fram hafa komið áhyggjuraddir hjá Öryrkjabandalaginu og í ræðu framkvæmdastjóra Öryrkjabandalags Íslands árið 2003 við setningu Evrópuárs fatlaðra kom fram að í Noregi hafði sambærilegur flutningur til sveitarfélaganna valdið því að fólk með fötlun hraktist á milli sveitarfélaga til að leita sér að betri þjónustu. Þetta skulum við forðast að verði að veruleika hér á Íslandi. Ég trúi því og treysti að þeir sem hafa blandað sér í umræðuna hér í dag standi vörð um þetta sjónarmið.