144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[12:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er laukrétt hjá hv. þingmanni að frumkvæði að þessu máli kom úr ráðuneytinu og eins og ég nefndi áðan eru þetta fjölmörg atriði sem hafa verið að safnast upp. Ráðuneytinu hafa borist athugasemdir vegna þeirra, eflaust í sumum tilvikum löngu áður en ég kom í ráðuneytið, en að sjálfsögðu hef ég farið yfir málið og geng út frá því að að hluta til séu hér á ferðinni atriði sem eigi jafnvel rætur sínar að rekja til ábendinga frá undirstofnunum ráðuneytisins.

Varðandi þetta atriði sérstaklega get ég tekið undir með hv. þingmanni hvað það snertir að það er mikilvægt að kalla eftir sjónarmiðum frá undirstofnunum, en auðvitað hljótum við líka að gera ráð fyrir því að ráðuneytið hafi aðra skoðun varðandi framkvæmd laga og þá ekki síður að þingið hafi sjálfstæða skoðun eða að hér á þinginu myndist meirihlutavilji til að gera breytingu jafnvel þótt þau sjónarmið kunni að vera uppi einhvers staðar í stjórnkerfinu hjá okkur að óþarfi sé að gera breytinguna eða að hún væri beinlínis afturför að mati viðkomandi stofnana. Við hljótum að gera ráð fyrir því að slíkar aðstæður geti komið upp, en mér er ekki kunnugt um að það sé tilfellið hvorki varðandi atriðið með milliverðlagninguna eða nokkuð annað í þessu máli.