145. löggjafarþing — 29. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:50]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni er tíðrætt um hörmuleg vinnubrögð. Ég verð að segja að ég get vel fallist á þá afstöðu hv. þingmanns að kannski hefði verið betra að í gjaldeyrislögum hefði verið tryggð aðkoma þingsins að öllum stærri ákvörðunum um undanþágu frá gjaldeyrishöftunum, en svo er ekki. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður hafi staðið að setningu þessara laga upprunalega með þeim hætti að í staðinn fyrir að undanþágurnar væru bornar undir þingið til samþykktar er bara farið fram á að þær séu bornar undir fjármálaráðherra og svo kynntar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, og það var gert. Farið var í einu og öllu eftir þeim lagaramma.

Seðlabankinn hefur alltaf haft heimild til þess að gefa undanþágur frá gjaldeyrishöftunum með þessum hætti svo lengi sem hann telur það uppfylla markmið um stöðugleika. Það sem bættist við var stöðugleikaskatturinn sem setti tímalínu í sandinn þannig að öllum var ljóst að þeir þyrftu að ljúka sínum málum fyrir áramót. Hér erum við einfaldlega að tryggja stöðugleikaframlögin sem þó hafa verið sett hér fram af fúsum og frjálsum vilja.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann sammála mér í því að ríkisvaldinu sé heimilt að ganga svo langt að gera upptækar eigur slitabúa, lögvarðar kröfur þeirra og eigur, í þeim tilgangi að ganga lengra en að tryggja hér fjármálalegan stöðugleika, ganga hér lengra en að tryggja hér að lífskjörin verði áfram jafngóð og betri en þau hafa hingað til verið? Eigum við að fara að leita að einhverjum búhnykk með því að ganga lengra? Það er í rauninni það sem virðulegir umsagnaraðilar Indefence virðast leggja til að við gerum, að þau leggi ekki bara krónueignina til, heldur líka allar eignir sínar á Íslandi til jafnvel þó að það séu til gjaldeyriseignir á móti og jafnvel þó að það raski ekki fjármálalegum stöðugleika eða greiðslujafnaðarjafnvægi (Forseti hringir.) og það raski ekki lífskjörum hér að þeir fái að taka þær með sér. Með hvaða rétti getum við þá tekið þær?