149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tollalög.

304. mál
[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við embætti tollstjóra. Markmið frumvarpsins er að gera úrbætur annars vegar á ákvæðum tollalaga um upplýsingagjöf um flutning fjármuna milli landa og hins vegar á ákvæðum um veitingu og afturköllun svokallaðrar VRA-vottunar.

Fjármálaaðgerðahópurinn, sem gjarnan er skammstafaður FATF, er sjálfstæð milliríkjastofnun. Hún hefur það hlutverk að þróa og vinna að vernd alþjóðlegs fjármálakerfis gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.  

Í apríl á þessu ári gaf FATF út skýrslu um mat á aðgerðum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í skýrslunni eru gerðar ýmsar athugasemdir við íslenskt lagaumhverfi. Athugasemdirnar snerta m.a. tilmæli stofnunarinnar nr. 32 sem snúa að flutningi fjármuna milli landa. Samandregið gagnrýndi FATF annars vegar að tilkynningarskylda vegna flutnings fjármuna milli landa væri ekki nægilega skýrt tilgreind í tollalögum. Hins vegar taldi hópurinn að heimildir til beitingar viðurlaga og haldlagningar fjármuna væru ófullnægjandi.

Í frumvarpinu er brugðist við athugasemdunum með tillögum um breytingu á nokkrum ákvæðum tollalaga. Um nánari skýringu vísa ég til greinargerðar frumvarpsins sem er allítarleg. Í XX. kafla A tollalaga er fjallað um VRA-vottun. Slíka vottun getur tollstjóri gefið út til lögaðila að loknu umsóknarferli. Í VRA-vottun felst að lögaðili telst svokallaður viðurkenndur rekstraraðili. Slíkir aðilar geta notið sérstakrar meðferðar við tollaframkvæmd. Með sérstakri meðferð er í þessu samhengi t.d. átt við einfaldari tollskoðun og forgang við tolleftirlit. Þeir aðilar sem hafa hlotið VRA-vottun njóta hennar við tollmeðferð í tengslum við innflutning en geta einnig notið hagræðis við tollmeðferð erlendis. Hagræði erlendis er þó háð því að íslensk stjórnvöld hafi gert gagnkvæman viðurkenningarsamning við viðkomandi innflutningsríki. Í slíkum samningi felst að innflutningsríkið viðurkennir VRA-vottun íslensks lögaðila og veitir honum hagfellda tollmeðferð á þeim grundvelli. Hjá embætti tollstjóra er í gangi tilraunaverkefni til að yfirfara virkni og framkvæmd VRA-vottunar. Nokkur íslensk fyrirtæki taka þátt í verkefninu og er vonast til að því verði lokið fljótlega eftir næstu áramót. Ekki hafa enn verið gerðir gagnkvæmir viðurkenningarsamningar við önnur ríki en vilyrði um viðræður liggja þó fyrir.

Komið hefur á daginn að ákvæði um VRA-vottun eru háð tveimur annmörkum sem vinna þarf bug á áður en til formlegra samningaviðræðna kemur. Í fyrsta lagi er tilgreining þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt til að hljóta VRA-vottun ekki fullnægjandi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að bæta úr þessu. Í öðru lagi hafa heimildir tollstjóra til að afla og vinna með upplýsingar til að sannreyna að skilyrði VRA-vottunar séu uppfyllt ekki reynst nægjanlegar. Í frumvarpinu er því lagt til að nýrri grein verði bætt við XX. kafla A tollalaga. Með greininni er ætlunin að fá tollstjóra fullnægjandi heimildir að þessu leyti. Um nánari skýringu vísa ég til greinargerðar frumvarpsins.

Rétt er að taka fram að fyrirkomulag VRA-vottunar sækir fyrirmynd sína til aðferðafræði sem Alþjóðatollastofnunin hefur mótað. Vottunin er hluti af viðleitni aðildarríkja stofnunarinnar til að liðka fyrir alþjóðaviðskiptum, draga úr viðskiptakostnaði og efla samstarf tollyfirvalda.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.