152. löggjafarþing — 29. fundur,  31. jan. 2022.

stuðningur við fötluð ungmenni eftir framhaldsskóla.

116. mál
[15:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þetta mál, sem er mjög mikilvægt og ég hef einmitt rætt þessi tilteknu mál hér á Alþingi áður. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um þá samfélagslegu ábyrgð sem við öll berum. Eftir að hafa starfað á starfsbraut í framhaldsskóla þar sem var mikið og gott samkomulag við atvinnulífið þá finnur maður hvað þetta skiptir miklu máli, þ.e. þegar námi þessara einstaklinga lauk, sem ég hafði kannski einhverja umsjón með á sínum tíma, þá áttu þau áfram tækifæri á hlutastörfum úti í samfélaginu. Það er það sem skiptir máli. Það er ekki eðlilegt að þetta unga fólk sitji heima eftir að framhaldsnámi lýkur. Við þurfum einmitt að horfa á alla skóla. Við erum með myndlistarskóla líka á Akureyri og mjög gott að heyra að það er verið að ræða eða huga að diplómanámi í háskólanum af því að hjá menntastofnunum þurfa bara að vera almennt skýr markmið um að hluti af þeim sem þar eiga aðgengi séu nemendur með fötlun. Þannig að ég, virðulegi forseti, tek hjartanlega undir það að hér þarf að gefa dálítið vel í þvert á ráðuneyti.