131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:21]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég mun nú halda áfram þar sem frá var horfið fyrr í dag í ræðu minni þar sem ég ræddi um stöðu sveitarfélaganna og hvernig samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa verið. Það hefur að vísu nokkuð verið rætt síðar í ræðum hv. þingmanna og ég get því stytt mál mitt verulega hvað þetta varðar. Eitt atriði verð ég þó óhjákvæmilega að minnast á vegna þess að það eru gögn frá fjármálaráðuneyti sem stangast algerlega á við það sem fram kemur í tímariti sveitarstjórnarmanna, þ.e. Sveitarstjórnarmálum, sem er nýlega komið út. Í riti fjármálaráðuneytisins, Úr þjóðarbúskapnum, segir frá því þar sem er verið að tilgreina að rekstur sveitarfélaganna að á árinu 2003 hafi þau skilað afgangi í fyrsta skipti frá því 1990. Þetta passar ekki alveg saman og það er nauðsynlegt að hæstv. fjármálaráðherra skýri þann mismun sem kemur fram í þessu riti og því sem kemur fram í nýjasta tímaritinu, Sveitarstjórnarmál. Þar segir m.a. þar sem fjallað er um niðurstöður ársins 2003 að afkoman verði tæpir 3 milljarðar kr.

Ekki nóg með það, heldur er það skýrt hér með tölum hvernig þetta hefur verið að þróast á milli ára. Ég mun ekki fara nákvæmlega yfir það, en hér kemur fram skýring sem er afar nauðsynlegt að við höldum til haga í umræðu um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ástæður lakari afkomu á árinu 2003 í samanburði við árið á undan eru einkum raktar til óhagstæðrar gengisþróunar, en einnig til mikillar fjölgunar einkahlutafélaga, sem dregur úr útsvarstekjum sveitarfélaga.“

Hér er þetta staðfest hreint og klárt og síðan vitnað til þess að væntanlega skeiki þarna um á annan milljarð kr. bara út af þessum eina þætti. Það er því augljóst mál að það tal um að sveitarfélögin hafi í raun næga fjármuni á ekki við rök að styðjast. Það er hins vegar nauðsynlegt að fá skýringu á hvernig á því standi að þessar upplýsingar eru svona algjörlega á skjön.

Herra forseti. Hér hefur nokkuð verið rætt, þó lítið hafi verið, um menntamál. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að við þurfum að horfa upp á það á árinu 2004 að það þurfi að halda fólki frá skólagöngu. Flestar þjóðir í nágrenni við okkur hafa verið að gera sérstakt átak til þess að reyna að fá fólk inn í skóla. Hér fá unglingar, einnig yngra og eldra fólk sem hyggur á skólagöngu þau skilaboð frá stjórnvöldum að það sé ekki æskilegt í skólum. Þannig voru m.a. skilaboð til þeirra sem vildu komast í framhaldsskólana í haust að einungis aðgangur nýliðanna væri tryggður, þ.e. þeirra sem voru að ljúka grunnskóla, en það fólk sem hafði dottið út af einhverjum ástæðum átti að vera einhver afgangsstærð. Það er með ólíkindum að svona skilaboð skuli koma frá stjórnvöldum.

Nú er gengið fram í því að reyna að bæta fjárhag háskólanna með því að stórhækka innritunargjöld. Það er ekki verið að hækka þau um einhver örfá prósent, heldur er farið í tæplega 40%, skólagjöldin skulu hækkuð úr 32.500 í 45 þús. kr. (Gripið fram í: ... ekki menntamálaráðherra fá að tala ...)

Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að vera á leiðinni hingað, herra forseti, því ég var búinn að óska eftir því fyrr í dag að það yrði tryggt að fagráðherrar væru hér til staðar þegar ég mundi halda seinni ræðu mína.

(Forseti (BÁ): Forseti skal kanna þetta mál, en það er ljóst að ýmsir ráðherrar hafa verið hér í dag eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Ég skal kanna þetta.)

Herra forseti. Það vill svo til að ég á einnig möguleika á þriðju ræðu og ég verð ef til vill að bíða með eitthvað af spurningum mínum þar til einhverjir hæstvirtra ráðherra ná að skila sér í hús.

Nauðsynlegt er að fá hæstv. menntamálaráðherra hér í hús vegna þess að í frumvarpinu kemur fram að ekki sé bara verið að stórhækka innritunargjöld í háskóla. Þar eru einnig tölur um nemendafjölda, bæði í framhaldsskólum og háskólum, sem eru gefnar upp sem helsta skýring á því að verið er að auka fjármuni til þessara stofnana.

Mér sýnist, þrátt fyrir að ég hafi ekki haft mikinn tíma til þess að skoða þessar tölur og sannreyna þær, að þær séu því miður allt of lágar. Í sumum tilfellum eins og í framhaldsskólunum virðast þær ekki einu sinni ná þeim tölum sem gert var ráð fyrir á þessu ári. Hér vantar greinilega mikið á. Ég er rétt byrjaður að glugga í fjáraukalög fyrir árið 2004. Þar kemur m.a. fram að verið sé að mæta auknum nemendafjölda í framhaldsskólum, en það á ekki að bæta skólunum það að fullu, heldur á að lækka viðmiðið frá því sem áður var. Þannig verður sagt: Við mætum nemendafjöldanum, en gerum það síðan ekki í krónutölunni. Þennan leik er búið að leika ár eftir ár eftir ár. Í fyrra var hins vegar verið að reyna að ná nemendafjöldanum, þá voru tölurnar lækkaðar. Þannig á að halda áfram, það á ekki að sinna menntakerfinu eins og eðlilegt er að við gerðum á þessu ári. Síðan koma alltaf hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og einstaka hv. þingmaður Framsóknarflokksins og endurtaka það í síbylju að það sé stöðugt verið að auka fjármuni til menntakerfisins. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að verið er að fjölga og bæta við í kerfinu sem er eðlilegt, en hins vegar verða menn auðvitað að mæta þeim þörfum sem til staðar eru.

Svo væri eðlilegt, herra forseti, að fá einhverjar skýringar frá hæstv. menntamálaráðherra ef hæstv. menntamálaráðherra mundi sjást hér, vegna þess að það kemur fram í frumvarpinu að loksins — loksins — eigi að hlusta á þá gagnrýni sem við höfum sett fram ár eftir ár á reiknilíkan framhaldsskólanna, því nú á loksins að fara að endurskoða það líkan. Nú ætlar fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið að setjast sameiginlega yfir líkanið og reyna að átta sig á því hvað er að. Það er auðvitað kominn tími til. Ég hefði viljað fá að heyra það frá hæstv. menntamálaráðherra hvaða þætti á sérstaklega að skoða. Það hafa verið gerðar a.m.k. tvær skýrslur um reiknilíkanið. Það liggur því fyrir að stórum hluta til hvað á vantar í því, hvað hefur legið til hliðar.

Herra forseti. Ég sé það að hæstv. heilbrigðisráðherra situr hér í salnum og mun því nýta tækifærið og eiga örlítinn orðastað við hæstv. ráðherra.

Það hefur komið hér fram að Öryrkjabandalagið telur, ásamt fleirum, að ekki sé staðið við samkomulag sem gert var fyrir kosningar á síðasta ári. Það er talið og hefur verið reiknað út að það vanti um 500 millj. á þessu ári og væntanlega eitthvað hærri upphæð á næsta ári til þess að standa við þetta samkomulag. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að hæstv. ráðherrar komi hér hver af öðrum og fullyrði að í þessu samkomulagi hafi eingöngu verið samið um eina ákveðna krónutölu. Ég man ekki betur en að í umræðum hér fyrir ári síðan hafi hæstv. heilbrigðisráðherra staðfest að það hafi ekki verið samið um ákveðna krónutölu, heldur um ákveðna leið sem ætti að fara. Það er auðvitað nauðsynlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi og skýri þá stöðu sem þetta mál er í nú og hvort búast megi við að því verði kippt í liðinn áður en fjárlög verða samþykkt.

Einnig er nauðsynlegt, herra forseti, að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi hækkun komugjalda á heilsugæslustöðvar sem eiga að hækka nú um tæplega 50 millj. hvaða munur er á þessari hækkun og þeirri hækkun sem var í frumvarpinu fyrir ári síðan? Er enn verið að bæta í? Hvaða fyrirkomulag er fyrirhugað í þeim efnum?

Það er einnig nauðsynlegt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um ýmis vandamál í heilbrigðiskerfinu sem ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í. En við heyrðum í fréttum í gær að Landspítali – háskólasjúkrahús, sem er stærsta sjúkrahús landsins, telur að miðað við fjárlagafrumvarpið þurfi það enn að grípa til niðurskurðaraðgerða. Því er nauðsynlegt að heyra frá hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða leiðir þar séu líklegastar til árangurs.

Herra forseti. Enn á ný gerist það að tími minn rennur út áður en ég lýk öllu því sem ég hefði viljað koma að. Ég vil nota þær örfáu sekúndur sem eftir eru til að óska eftir því að áður en ég held þriðju ræðu mína verði hæstv. menntamálaráðherra komin hingað í salinn, ef einhver möguleiki er á, og hæstv. samgönguráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, því við þessa þrjá ráðherra þarf ég að eiga örlítinn orðastað á eftir.

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að þeim óskum hv. þingmanns sem fram hafa komið hefur verið og verður komið á framfæri við viðkomandi hæstvirta ráðherra.)