133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:06]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir fagna því að kalda stríðinu er lokið. Ég hlýt eins og aðrir að fagna því að heimsmyndin er breytt og það er friðvænlegra í heiminum en ég vil jafnframt vara við því að tala af léttúð eins og hér sé komið tryggt og öruggt ástand að eilífu. Það eru nýjar ógnir eins og komið hefur fram í umræðunni, ógnir á borð við glæpi og alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og þar fram eftir götunum og þar ber okkur að sjálfsögðu að vera á varðbergi.

Það er, hygg ég, samhljóma mat allra að ástæða hafi verið til að bregðast við þessari breyttu heimsmynd og breyttu aðstæðum í veröldinni, a.m.k. þess sem hefur verið aðalgreiðandi fyrir varnarstöðina hér, þ.e. Bandaríkjamanna og okkar eins og flestra annarra. Ég tel að sá samningur sem íslensk stjórnvöld gerðu við Bandaríkjamenn sé ásættanlegur að langsamlega flestu leyti með einni undantekningu þó vil ég meina og það er viðmót gagnvart elstu starfsmönnum varnarliðsins, þeirra sem helgað hafa alla starfsævi sína vinnuveitandanum, varnarliðinu, og búa líklega við mest óöryggi.

Umhverfismál hafa töluvert verið nefnd í þessari umræðu. Að minnsta kosti þrír hv. þingmenn hafa talað hér um umhverfismálin eins og íslensk stjórnvöld vissu ekkert um hvernig þeim málum væri háttað, þar á meðal tveir hv. þingmenn úr Suðurkjördæmi og einn fyrrverandi sveitarstjórnarmaður úr sama kjördæmi. Ég vil mótmæla því, hæstv. forseti, því að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur fylgst náið og mjög grannt með öllu því sem fram hefur farið hvað varðar umhverfismálin. Hingað kom m.a. árið 1989 sérfræðingasveit frá Bandaríkjunum til þess að yfirfara hugsanlega mengunarstaði og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja var fullur þátttakandi og fylgdist með því. Það hefur verið kortlagt nákvæmlega hvar mengun er, hvers lags mengun og gerð áætlun um hvað þurfi til þess að fjarlægja hana ef á þurfi að halda. Ég bið því menn að tala hér af varúð en afhjúpa ekki vankunnáttu sína.

Það sem mér blöskrar þó mest er að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon koma hér ítrekað í ræðustól og lýsa mikilli skömm á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir það að hafa sýnt mengunarmálum á varnarsvæðinu alla þessa léttúð, eins og hann talar um. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsir þeirri skömm sem hann hefur á því hvernig umhverfismál eru meðhöndluð og umfjölluð í þessum samningi. Það vill svo til að árið 1989 gerði þáverandi utanríkisráðherra samning við Bandaríkjamenn, með fullri vitund og vilja sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum, um að ef þau greiddu fyrir ný vatnsból 600 millj. kr., sem þau gerðu, þá væru Bandaríkjamenn lausir undan ábyrgð. Þetta er samkomulag sem þáverandi formaður Alþýðuflokksins, nestor Samfylkingarinnar, stóð að. Svo koma hv. þingmenn hingað, samfylkingarþingmenn og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og skammast yfir þessu, samningi sem þáverandi hæstv. utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar gerði við Bandaríkjamenn. Og hver skyldi hafa verið í þeirri ríkisstjórn nema hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon? Það má segja að samningur íslenska utanríkisráðherrans við Bandaríkjamenn sé gerður á ábyrgð Steingríms J. Sigfússonar, sem kemur síðan hingað, saklausari en allt sem saklaust er, og furðar sig á því að íslensk stjórnvöld skuli koma þannig fram gagnvart íslenskri náttúru og íslenskum umhverfismálum. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það sem skiptir máli í þessu er framtíðin. Að sjálfsögðu hefur vera varnarliðsins haft áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum. Núna þegar varnarliðið er farið munu að sjálfsögðu opnast þar ný tækifæri. Ég bind miklar vonir við það opinbera hlutafélag sem mun verða stofnað og hvet hæstv. ríkisstjórn til þess að ganga frá skipan þess hið fyrsta þannig að hægt sé að hefja endurreisnarstarf að nýju á þessu mikla svæði.