134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Vaðlaheiðargöng.

[15:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Nú eru akkúrat þær sérstöku aðstæður uppi að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spyr hér hæstv. samgönguráðherra spurninga. Það er vel að þau skipti hafi átt sér stað á milli okkar. Hún spyr út í Vaðlaheiðargöng og þann mikla áhuga sem er á þeim og við vitum öll um, sérstaklega þingmenn kjördæmisins. Ég get sagt að tveir fundir hafa átt sér stað milli Vegagerðarinnar og Greiðrar leiðar ehf. um þetta mál og þær viðræður ganga vel. Ég get líka upplýst að ég hef í hyggju að fara sem fyrst norður til að ræða við Greiða leið ehf. um þetta mál.

Það er rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði, það eru ekki nema 300 millj. markaðar í þetta verkefni á árunum 2008, 2009 og 2010. Það vitum við að dugar ekki til.

Hún ræðir líka um nýliðna kosningabaráttu og um einkaframkvæmd. Ég vil bara leiðrétta hana með það, hv. þingmann, að ég hef aldrei útilokað að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng verði unnar í einkaframkvæmd. Svo er ekki.

Ég vona að þetta segi hv. þingmanni eitthvað um þann áhuga sem fyrir hendi er. Ég get sagt að áhugi þess sem hér stendur fyrir framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng hefur ekki minnkað. (Gripið fram í: Nú?)