137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ég held að svarið, frú forseti, sé já og nei. Í mínum huga er sjálfsagt mál að reglugerðarákvæðin í heild sinni verði send viðkomandi þingnefnd til umsagnar, enda er nærtækara held ég að túlka það svo. „Fjármálaráðherra skal áður en reglugerð skv. 1. mgr. 8. gr. er sett leita umsagnar viðeigandi þingnefnda um efni hennar.“ Og síðan í næstu málsgrein koma stafliðirnir, ég tel því að eðlilegt sé að það séu þeir allir.

Í seinna tilvikinu þá held ég að megi segja að afar fá dæmi ef eiginlega nokkur séu um það að reglugerðarvaldið sem ráðherra er falið í lögum, að það sé skilyrt eða bundið við það að ráðherra skuli senda það til umsagnar eða fá álit viðeigandi þingnefndar, sem er hins vegar ágætisfyrirkomulag. Ég sé ekkert að því að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið hafi þannig samráð um mikilvæga hluti. Markmiðið í þessu tilviki hefur verið að reyna að ná sem breiðastri sátt um framgang þessa máls. Aðstæður eins og þær hafa þróast í (Forseti hringir.) viðskiptalífi okkar undanfarnar vikur hafa fært mér heim sanninn um að það væri óráðlegt annað en að eiga þetta tæki til og vonandi þarf sem minnst eða aldrei að nota það.