140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fór mjög víða í ræðu sinni og hæstv. fjármálaráðherra kom ágætlega inn á umræðu hans um frumjöfnuð. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér en beini því til hv. þingmanns að skoða þetta mál betur því að ég held að við deilum öll áhyggjum af skuldabyrði og það er mikilvægt að ná frumjöfnuði til að draga úr skuldasöfnun og heildarjöfnuður er forsenda þess, þannig að við höfum það á hreinu.

Ég kem hér upp af því að hv. þingmaður segir að nú séum við að setja útdeilingu fjármuna í hendurnar á ráðuneytisstarfsmönnum ríkisins. Ég vil bara ítreka það sem ég fór yfir áðan að markmiðið með breytingunum á úthlutun safnliða eru faglegri og vandaðri vinnubrögð. Verið er að færa útdeilingu fjármunanna til lögbundinna sjóða sem sjá um útdeilingu ríkisfjármuna til ýmissa verkefna. Fyrst við tölum um landsbyggð/höfuðborgarsvæði gerir ríkið menningarsamninga við landshlutasamtök og menningarráð þessara landshlutasamtaka sem falið verður að útdeila fjármunum sem við í fjárlaganefnd gerðum áður. Það er hugsunin; faglegri vinnubrögð og markvissari nýting fjármuna. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig nokkur getur haft á móti því að reyna að með þessum hætti að tryggja betri notkun ríkisfjármuna.