143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur þann vana að reyna alltaf að túlka orð annarra þingmanna inn í þingtíðindin þannig að það sé á prenti eitthvað að nákvæmlega þetta hafi þingmaðurinn sagt eða þetta hafi verið afstaða hans — (GÞÞ: Ég var að spyrja þig.) bíddu rólegur, hv. þingmaður — þó að það sé ekki nákvæmlega það sem sagt var. Já, ég sagði að ég væri til varðandi þennan bankaskatt og breikkun hans ef það reyndist lagalega og tæknilega hægt að koma honum á. Ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til að skoða það. Ég hef þann fyrirvara á varðandi stuðning við málið. Ég tel líka að fara þurfi ofan í það þegar við loksins fáum eitthvað að sjá og heyra frá þessari ríkisstjórn varðandi áætlun um afnám gjaldeyrishafta og samskipti við kröfuhafa hvaða áhrif það hafi inn í það samhengi að fá tilkynningu um að þeir muni ekki geta hreyft sig, fái engar útgreiðslur og enga nauðasamninga samþykkta í tvö ár. Hér stendur að það eigi að taka þennan skatt af heildarkröfustabba upp á 7.800 milljarða í tvö ár. Hann verður þá að vera þarna, kröfustabbinn. Það má ekki vera búið að eyða honum með nauðasamningum eða útgreiðslum úr búunum.

Þessa hluti þarf alla að skoða í samhengi og ríkisstjórnin hefur enn ekki haldið einn einasta fund með fulltrúum stjórnarandstöðunnar um það hvernig hún hyggist vinna að afnámi gjaldeyrishaftanna og samskiptum við kröfuhafa.

Til að andmæla inn í þingtíðindin oftúlkun hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var ég ekki að segja að ég væri sammála eða að ég samþykkti þessa ráðstöfun milli ríkissjóðs og Seðlabankans. Ég sagði að það væri margt í þeim samskiptum sem væri eðlilegt að skoða. Mér finnst þetta groddalegt svo ég segi það hér.

Hann spyr hvenær ég hafi farið að átta mig á því að sennilega stefndi í eitthvað verri afkomu ríkissjóðs á þessu ári en vonast hafði verið eftir. Fjárlagafrumvarp þessa árs er byggt á hagspá Hagstofunnar í nóvember síðastliðnum og það er ekki fyrr en hagtölur fara að koma, þegar líður verulega á þetta ár, sem það fer að birtast okkur nokkuð afdráttarlaust að sennilega verði hagvöxtur minni og tekjur þar af leiðandi nokkuð minni en forsendur fjárlaga byggðu á. Svo einfalt er það mál. Svona um mitt ár, þegar sex mánaða uppgjörið kom og í framhaldinu, fór maður að kyngja því og horfast í augu við að þetta yrði eitthvað erfiðara. (Forseti hringir.) Svo er upplýst að söluhagnaður af tekjum verði eitthvað minni (Forseti hringir.) þannig að sá liður er veikari en þó þannig að arðgreiðslur til ríkisins á árinu verða fyllilega þær sem fjárlögin gerðu ráð fyrir. Það er líka ofsögum sagt af því að tekjuforsendurnar hafi alveg brugðist.