146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[14:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017, sem lengst af hefur gengið undir hinu þinglega gæluheiti bandormurinn. Ég ætla að leyfa mér að halda mig við það hér. Áður en við förum að ræða einstök atriði og einstaka þætti frumvarpsins þá held ég að verði ekki hjá því komist að við drögum upp það pólitíska og þinglega samhengi sem málið er sett fram í. Bæði fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvarpið eru byggð á grunni ríkisfjármálaáætlunar ríkisstjórnar sem hefur misst meiri hluta sinn á Alþingi. Það þingmál var á sínum tíma borið uppi af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki gegn atkvæðum þáverandi stjórnarandstöðu sem varaði við þá atkvæðagreiðslu sérstaklega við því að í ríkisfjármálaáætluninni væri í raun áformað að innviðir samfélagsins, vegakerfi, fjarskipti, heilbrigðis-, mennta- og velferðarmál, væru allir sveltir til framtíðar, þ.e. fjármálaáætlunin sem slík skilaði ekki öruggri stöðu þessara þátta til framtíðar. Gott og vel.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál bar þeirri ríkisstjórn að leggja þetta plagg fram, en það er gríðarlega pólitískt. Það er stefnumarkandi og pólitískt vegna þess að þegar allt kemur til alls þá er kannski mesta pólitíkin fólgin í því hvar við viljum setja peningana, hvernig við viljum raða þeim, síðan hvernig við viljum afla þeirra, hversu mikilla o.s.frv. Við þurfum því öll sem hér erum að hafa þann fyrirvara á umræðunni að hér er enginn í stjórnarandstöðu. Hér er heldur enginn í stjórnarmeirihluta. Við erum að ræða plagg sem er byggt á grunni ríkisstjórnar sem var, þingmeirihluta sem hefur misst sitt umboð frá kjósendum, þ.e. sá meiri hluti er ekki lengur fyrir hendi. Þetta þurfum við að muna vegna þess að þar með er ábyrgð okkar önnur. Þá er ég ekki bara að tala um þá sem höfðu efasemdir um ríkisfjármálaáætlunina á sínum tíma heldur alla þá þingmenn sem eru kjörnir á Alþingi og ekki síst þá sem ekki voru hér þegar við tókumst á um þessar forsendur, bæði ríkisfjármálaáætlunina og þær efnislegu pólitísku forsendur sem þar lágu til grundvallar. Þeir þingmenn eru í þeirri stöðu að leggja á þær forsendur sjálfstætt mat.

Það er ekki þannig að ríkisfjármálaáætlun sem lögð er fram af þáverandi ríkisstjórn taki af okkur öllum sem hér erum okkar lýðræðislega rétt, okkar lýðræðislegu skyldu, til þess að ræða forgangsröðun fjármuna inn í samfélagið og til þess að ræða tekjuöflun til að standa straum af þeim útgjöldum. Það ber okkur að gera. Þetta segi ég, virðulegur forseti, og vil staldra sérstaklega við það vegna þess að mér fannst örla á því í umræðunni að menn töluðu eins og ríkisfjármálaáætlunin væri höggvin í stein, eins og hún væri nánast eins og náttúrulögmál og allt sem þar kæmi á eftir yrði samkvæmt því náttúrulögmáli að lúta þeim ramma. Löggjafinn hefur þá stöðu að setja lög. Löggjafinn hefur líka þá stöðu að geta og eiga að ráðslaga um fjárhag ríkisins. Við höfum fjárstjórnarvald og þá ábyrgð og það vald ber okkur að axla, okkur ber að sinna því og það þurfum við að gera án þess að benda á ramma sem aðrir hafa sett. Ef við erum sátt við þann ramma þá er það vel, en við þurfum að horfast í augu við að sú spurning liggur í loftinu. Henni þurfum við að svara.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði greiddum atkvæði gegn ríkisfjármálaáætlun á sínum tíma og teljum okkur ekki í þeim skilningi bundin af þeim forsendum og þeirri pólitísku sýn sem þar birtist. Þess vegna, rétt eins og kom fram í kosningabaráttunni, teljum við að gera þurfi betur en þar kom fram í innviðum, í heilbrigðiskerfi, í menntakerfi. Jafnframt horfumst við í augu við það, og erum ekki þeirrar gerðar að við viljum líta þar undan, að til þess þarf að afla tekna.

Nú urðu þau tíðindi á síðasta kjörtímabili undir lokin að þá varð mjög óvenjuleg pólitísk staða að mörgu leyti þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fór frá völdum við mjög óvenjuleg skilyrði og ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við og ákveðið var að flýta kosningum. Þess vegna erum við hér við þessar skrýtnu aðstæður. Þá gerðist það að þingið þjappaðist saman. Það var mjög ánægjulegt að upplifa þá stemningu á Alþingi að við sammæltumst um það, stjórnarmeirihluti og minni hluti — og þetta fréttist alltaf minna heldur en átökin, það eru allir til í að tala um átökin — við sammæltumst um það, stjórnarandstaðan og meirihlutaflokkarnir, að byggja vinnu okkar á málefnum og klára stór og erfið mál með því að leggja gott til og með því að freista þess að ná sameiginlegri þverpólitískri lendingu í ljósi stöðunnar. Þetta gerðum við í fjöldamörgum málum, breytingum á dómstólakerfinu, útlendingalögum, málum sem lutu að húsnæðismálum og fleiri málum. Við gerðum það síðast en ekki síst þegar kom að einum grundvallarþætti í íslensku samfélagi sem er vegakerfið, sem er einfaldlega það hvernig við ætlum að tryggja að fólk komist á milli staða í þessu strjálbýla og stóra landi sem ætlar líka að vera myndarlegur og metnaðarfullur gestgjafi, sem ætlar að vera svo myndarlegur og metnaðarfullur gestgjafi að hann hyggst byggja efnahag sinn að mörgu leyti á þessari nýju atvinnugrein, sem er að vera gestgjafi sem stendur undir nafni, sem tekur við ferðamönnum, gerir það vel, gerir það faglega, gerir það af virðingu fyrir samfélaginu, virðingu fyrir innviðum þess og síðast en ekki síst fyrir virðingu fyrir menningu þess og náttúru.

Hluti af því að gera þetta vel er að vera með innviði sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir, vera með vegakerfi sem við þurfum ekki að skammast okkar fyrir og, sem er kannski mikilvægast af öllu, að vera með vegakerfi sem er ekki hættulegt lífi fólks. Það er sá veruleiki sem við erum því miður farin að horfast í augu við í ríkari mæli. Vegakerfið á Íslandi er í þeirri stöðu að vegamálastjóri segir að það sé núna að drabbast niður. Það er ekki nóg með það að við séum ekki að setja nægilegt fé inn í nýframkvæmdir heldur sinnum við ekki viðhaldi með viðhlítandi hætti þannig að það líður í raun og veru fyrir vanrækslu. Þetta er háalvarlegt mál. Það er háalvarlegt út frá byggðasjónarmiðum, út af atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu þar sem sveitarfélögin eru orðin landstærri en þau voru eftir ýmsar sameiningar, atvinnusvæðin eru orðin stærri, fólk þarf að geta komist á milli o.s.frv. Síðast en ekki síst eru það ferðaþjónustan. Ferðaþjónusta í samfélagi sem ætlar að taka við 1,8 milljón ferðamanna á þessu ári má ekki við því í mörg ár í viðbót að það kosti beinlínis mannfall, að það sé beinlínis þannig. Við verðum að horfast í augu við að við séum að vanrækja vegakerfið og það skilar því að það er óöruggt, fólk lendir í slysum, við erum með tugi af einbreiðum brúm til að mynda bara á Suðurlandi, sem er einfaldlega ekki boðlegt í samfélagi sem ætlar að gefa sig út fyrir það að vera gestgjafi í landi eins og Íslandi.

Út af öllu þessum rökum, og ég held að enginn mundi andmæla þessu, og í því pólitíska andrúmslofti sem ríkti í vor og í haust sem leið tókum við ákvörðun þverpólitískt um það að sammælast um setja meira fé í viðhald á vegum úti um allt land. Við, fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, héldum hér ræður, sú sem hér stendur og fleiri. Hv. þm. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var einn minna bestu bandamanna í því að styrkja samgönguáætlun. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins og þáverandi formaður nefndarinnar, Höskuldur Þórhallsson, var líka með okkur í liði, Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður, Róbert Marshall og fleiri. Við vorum öll sammála og við vorum sérstaklega stolt af því þegar við í nefndinni náðum þeim árangri að bakka áætlunina upp eins og kallað var með því að tryggja atkvæði allra í þingsal með áætluninni. Atkvæði allra í þingsal þýddi ekki bara atkvæði þeirra sem voru hérna megin í salnum heldur líka þeim sem sátu hér, þar á meðal hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssyni og hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal, allra þeirra ráðherra sem voru þátttakendur í þeirri ríkisstjórn sem nú er starfsstjórn, þeir sammæltust um það að styðja breytta samgönguáætlun.

Ég skora á núverandi þing að taka þessa ákvörðun Alþingis alvarlega. Það skiptir máli fyrir trúverðugleika stjórnmálanna á Íslandi sem okkur þykir nú öllum vænt um að það sé þannig að við meinum eitthvað með því, ekki bara í krafti meiri hluta, að komast að niðurstöðu, heldur meinum við kannski sérstaklega mikið með því þegar við náum þverpólitískri samstöðu um stór mál. Slíkar ákvarðanir ættu að vera okkur enn þá meira hjartans mál en aðrar ákvarðanir.

Ég geri mér grein fyrir því að þarna er um að ræða stórar tölur. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru 11 eða 13 milljarðar eftir því hvernig reiknað er og hvað er tekið þar undir sem þarf að fjármagna með einhverju móti fyrir næsta ár. Það er töluvert, en það er viðfangsefni sem Alþingi hefur samþykkt og viðfangsefni sem Alþingi hefur meira að segja samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þingmanna í þingsal á tímum þegar samgöngur okkar og samgöngukerfi þurfa virkilega á því að halda. Það er nákvæmlega það sem við eigum að vera að gera hér. Ég hef væntingar til þess að við leggjumst öll á árar um að láta þetta verða að veruleika með því að fjármagna það líka með ábyrgum hætti.

Hér hefur staða einstakra ríkisstofnana aðeins komið fram í umræðunni og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi hana. Það er gömul saga og ný sem við þekkjum öll þegar fjárlagafrumvarp kemur fram til 1. umr. að þá eru miklar umræður um stöðu einstakra ríkisstofnana. En við getum ekki litið undan, virðulegur forseti, þegar forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss talar um hamfarir. Við getum ekki leyft okkur það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði í gær að ræða það af léttúð. Þessi málaflokkur er í þeirri stöðu að yfir 80.000 Íslendingar undirrituðu bænaskjal til okkar allra um að taka höndum saman og leggja áherslu á spítalann okkar, heilbrigðismálin út um allt land vegna þess, virðulegur forseti, að við erum að ég tel í fullri alvöru að missa af lestinni ef við gerum þetta ekki. Það er þannig með innviði dýrmætrar þjónustu og kerfis eins og heilbrigðiskerfisins að ef vanrækslan hleðst upp til of langs tíma og við vitum að þetta eru vanrækslusyndir til mjög langs tíma, aðhaldið sem hefur verið árum og sums staðar áratugum saman, fyrir hrun meira að segja, nagar það svo innan úr þessum kerfum að það kann að verða mjög erfitt að reisa þau aftur. Það hvílir mjög mikil ábyrgð á okkur og ekki síst þeim sem eru að velta fyrir sér mögulega myndun meirihlutastjórnar hér á Íslandi. Brýnustu verkefnin eru að koma þessum kerfum til varnar. Við verðum að gera það. Ef við erum þeirrar skoðunar að vera okkar hér snúist um eitthvað annað en að sinna innviðum heilbrigðis- og menntakerfis fyrir Ísland, fyrir samfélagið okkar, þá erum við á villigötum. Þá ættum við að snúa okkur að einhverju öðru.