148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra talar um að við þurfum að sýna ábyrgð og ég þurfi að vera sanngjarn. Ég skal reyna að vera sanngjarn. Ég veit að það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. En er ekki allt í lagi að gera eitthvað? Meira en 2%, var það ekki raunhæft að gera meira en 2%, tveggja prósenta breytingu á því frumvarpi sem Samfylkingin, Vinstri grænir og fleiri flokkar gagnrýndu. Er það til of mikils mælst? Er ég of dramatískur þegar ég kalla eftir meiri breytingu en 2%? (Forsrh.: Nei.) Það er það sem ég er að benda á. Ég vil líka benda hæstv. forsætisráðherra á það að hún kaus þessa samstarfsfélaga sem náðu algjörlega sínu fram. En stefnumál Vinstri grænna, þar sem ég get tekið undir svo margt, þurftu algjörlega að lúffa þegar kom að gerð stjórnarsáttmálans. (Gripið fram í.)

Varðandi fjármagnstekjuskattinn. Ég styð hækkun fjármagnstekjuskatts. Ég vil hafa hann þrepaskiptan. En ég set fyrirvara um það hvort við ættum að hafa einhverja sérstaka vernd gegn verðbólgu. Það væri fróðlegt að heyra það seinna í dag. Ætla Vinstri grænir að tryggja það að þetta verði eins konar nettóskattur en ekki brúttóskattur? Á þessum tímapunkti finnst mér miklu rökréttara að skoða frítekjumark. Við ættum að skoða það frekar. Það væri miklu meira í anda jafnaðar að mínu mati. (Gripið fram í.)

Vaxtabæturnar er svo einföld aðgerð til að ná til fólks. Þegar við vorum saman í ríkisstjórn, Samfylking og VG, þá voru vaxtabæturnar þrisvar sinnum hærri í krónutölu en þær eru í dag. Þetta er því spurning um pólitískan vilja. Þær voru 12 milljarðar þegar Vinstri grænir og Samfylking voru síðast í ríkisstjórn. Þær eru 4 núna og fara lækkandi. Þetta er hin pólitíska forgangsröð sem við í Samfylkingunni erum svo ósátt við. Þið í VG valdið okkur svo miklum vonbrigðum og það er okkar hlutverk að benda ykkur á þetta. Þið eigið ekki að kveinka ykkur yfir þeirri gagnrýni. Þetta frumvarp er ekki í samræmi við það sem þið lofuðuð kjósendum og þjóðinni. Þið þurfið að svara fyrir þetta.

Ég tel að ég sé ekki ósanngjarn með að benda á fyrri loforð sem eru nú ekki eldri en sjö vikna gömul, herra forseti.