148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:21]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka fyrir þetta svar. Ég treysti því að þeim góða hug sem þetta svar lýsir muni fylgja efndir. Mér er minnisstætt á þessum fundi sem við vorum á í Safnahúsinu að það var einn frambjóðandi sem skar sig úr, það var Vilhjálmur Bjarnason sem bauð sig fram fyrir Sjálfstæðisflokk og situr nú reyndar ekki lengur á þingi. Hann lagðist gegn því að afnema virðisaukaskatt á bækur því hann vildi passa upp á samræmi og maður fékk á tilfinninguna að hann talaði máli kerfisins, hann væri maður sem hugsaði eins og kerfið hugsar. Maður fékk á tilfinninguna eftir á að hann hafi jafnvel verið eini maðurinn þarna sem var algerlega ærlegur. En ég spyr: Getur hugsast að í kerfinu séu enn þá ráðandi öfl sem hafi meira um þetta mál að segja en hinn pólitíski, breiði, almenni vilji?