150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 sem er 1. mál 150. löggjafarþings. Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir Alþingi þegar það kemur saman og í 25. gr. þingskapalaga er kveðið á um að frumvarpið skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings.

Fjárlagafrumvarpið er byggt á grundvelli fjármálaáætlunar fyrir árin 2020–2024 og endurskoðaðrar fjármálastefnu, en hvort tveggja var samþykkt 20. júní sl. Eins og kunnugt er var nauðsynlegt að endurskoða stefnumið fjármálastefnu og þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun sem lögð var fram í lok mars vegna breyttra efnahagshorfa. Þetta var gert til að stuðla að því að aðhaldsstig opinberra fjármála yki ekki á samdrátt eða hjöðnun hagvaxtar umfram þá aðlögun sem hagkerfið gengur í gegnum og fólu endurskoðuð stefnumið í sér lækkun afkomumarkmiða. Í fjárlagafrumvarpinu er dregið úr áður fyrirhuguðum afgangi af rekstri ríkissjóðs á meðan hagkerfið leitar jafnvægis og fær fótfestu fyrir nýtt hagvaxtarskeið.

Fjárlagafrumvarpið, eins og það er lagt fram núna, er nokkru efnisminna en verið hefur undanfarin ár, ég tek árið í fyrra til samanburðar í því efni. Við erum smám saman að reyna að finna rétta taktinn í því að endurbirta ekki um of efni úr fjármálastefnu að vori aftur að hausti í fjárlagafrumvarpinu. Frá einni fjármálaáætlun ríkisstjórnar til hinnar næstu ætti að draga sem mest úr endurtekningum. Ég læt þessa getið hér og tel að við munum halda áfram að leita að rétta taktinum í þessu efni.

Virðulegur forseti. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu. Fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs er afleiðing þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár og leiðir hann til þess að unnt er að halda áfram uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins. Við þær aðstæður sem nú hafa skapast kemur í ljós hversu miklu hefur skipt að nýta góðu árin til að búa í haginn fyrir magrari ár. Með því að ríkissjóður hefur verið rekinn með góðum afgangi á toppi hagsveiflunnar og skuldir lækkaðar er nú mögulegt að mæta breyttum aðstæðum án þess að hefja skuldasöfnun og fara í niðurskurðaraðgerðir, eins og allt of oft hefur orðið niðurstaðan í fyrri niðursveiflum.

Ríkisfjármálum verður leyft að sinna hlutverki sínu við að dempa hagsveifluna með því að slaka á afkomumarkmiðunum. Leiðarljós þeirrar hagstjórnar er að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum. Þá er einnig vert að minnast á að nú fara saman peningastefna og fjármálastefna ríkisins á réttum tíma í hagsveiflunni, þökk sé hagstjórn undanfarinna ára sem hefur m.a. skapað svigrúm til vaxtalækkana nú þegar hægir á í hagkerfinu. Sveigjanleiki gengis íslensku krónunnar, sem hefur að undanförnu endurspeglað undirliggjandi hagþróun, og lækkandi vextir Seðlabankans leggjast einnig á sömu sveif. Meginvextir bankans hafa aldrei verið lægri. Þá hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum til að varna efnahagslegum óstöðugleika með nýlegum kjarasamningum sín á milli. Ég held að það sé nokkuð einstakt í hagsögu okkar hvernig þessir þrír undirliggjandi og mikilvægu þættir vinna saman nú um mundir og það er mjög til hagsbóta fyrir landsmenn.

Samkvæmt frumvarpinu verður rekstur ríkissjóðs í jafnvægi árið 2020 sem er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Ný afkomumarkmið stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu þannig að sjálfbærni opinberra fjármála verði viðhaldið til lengri tíma en þau eru til þess fallin að leyfa sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna að virka á meðan hagkerfið leitar jafnvægis. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist um 56 milljarða kr. milli ára en tekjur aftur á móti aðeins um 27 milljarða kr. Þrátt fyrir þetta verður frumjöfnuður ársins jákvæður um 1,6% og heildarafkoma jákvæð um 400 millj. kr. Afgangur á frumjöfnuði ríkissjóðs hefur raunar aldrei áður verið jákvæður þegar hagvöxtur er minni en 1,5% sem telst til nokkurra tíðinda. Hér er horft 20 ár aftur í tímann eins og rakið er í fjárlagafrumvarpinu. Til að setja þessar tölur í samhengi er Ísland enn á meðal þeirra ríkja Evrópu sem skila hvað mestum frumjöfnuði. Sú staðreynd er merki þess hvernig ábyrg fjármálastefna síðustu ára hefur gert það að verkum að hagkerfið er mun betur í stakk búið en áður til að takast á við þær aðstæður sem við stöndum nú frammi fyrir.

Það er í raun sama á hvaða mælikvarða er rýnt, alls staðar birtist sterk staða þjóðarbúsins. Atvinnustig er það hæsta meðal landa í OECD, tekist hefur að halda verðbólgu lágri og vextir hafa lækkað umtalsvert á þessu ári. Þróunin hefur m.a. birst í því að fleiri geta nú fjárfest í eigin húsnæði og hefur hlutfall fyrstu íbúðarkaupenda vaxið hratt undanfarin misseri. Þá hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða aldrei verið hærri, auk þess sem fleiri nýjar stoðir eru að verða til í hagkerfi okkar sem standa þá undir því. Má þar nefna fyrirtæki í þekkingariðnaði en laxeldið vex líka mjög að umsvifum og skapar sífellt aukin útflutningsverðmæti.

Virðulegur forseti. Allt frá árinu 2013 hefur lækkun skatta á einstaklinga verið forgangsmál stjórnvalda. Á tímabilinu 2014–2018 voru skattar lækkaðir um nærri 25 milljarða á ársgrundvelli og ráðstöfunartekjur stórjukust í kjölfarið. Í því samhengi má nefna nýlega úttekt á kaupmætti meðallauna sem sýnir að árið 2018 var kaupmáttur meðal OECD-ríkja hvergi meiri en á Íslandi. Það ættu að vera stórfréttir.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var kveðið á um frekari lækkun tekjuskatts, þ.e. sem næmi allt að einu prósentustigi á kjörtímabilinu. Í aðdraganda kjarasamninga kynnti ríkisstjórnin enn umfangsmeiri lækkun tekjuskatts og breytingar á skattkerfinu. Alls munu breytingarnar fela í sér 21 milljarðs kr. lægri álögur þegar þær verða að fullu innleiddar en það samsvarar um 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. Þá mun lækkunin koma að fullu fram á tveimur árum en ekki þremur eins og áður hafði verið boðað í tengslum við fjármálaáætlun. Tekjuskattslækkunin léttir til muna skattbyrði lág- og millitekjuhópa og eykur ráðstöfunartekjur þeirra. Stuðlar hún þannig að efnahagslegum stöðugleika vegna tímasetningarinnar í hagsveiflunni, léttir undir með einkaneyslunni þegar dregur saman og þannig spila ríkisfjármálin mjög vel með þeirri stöðu sem við horfum fram á.

Ný útfærsla skattkerfisins felur í sér nýtt grunnþrep, auk nýs viðmiðs í þróun persónuafsláttar og þrepa, sem fylgir þróun samanlagðra breytinga á vísitölu neysluverðs og þróun framleiðni. Allt eru þetta meiri háttar tímamót í mínum huga, nýja viðmiðið fyrir persónuafsláttinn, lífskjarasamningar sem horfa til hagvaxtar á mann í framtíðinni og breytingar á tekjuskattskerfinu sem eru auðvitað fyrst og fremst hugsaðar til að lækka skatta. Allt eru þetta stór tímamót.

Einnig kemur til framkvæmdar síðari hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds um áramót, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Lækkun tryggingagjaldsins styrkir augljóslega rekstrargrundvöll og samkeppnishæfni fyrirtækja og styður almennt við vinnumarkaðinn, ekki síst fyrir smærri fyrirtæki með há launahlutföll. Lægra tryggingagjald dregur þannig úr hættu á enn meira atvinnuleysi en nú er spáð. Ég verð að nefna í þessu sambandi að við erum á sama tíma að hækka fæðingarorlofsgreiðslur og lengja fæðingarorlofið og það dregur úr möguleikum okkar til enn frekari lækkunar á tryggingagjaldi. Það er þó önnur umræða sem við getum kannski tekið síðar.

Virðulegi forseti. Í fjárlögum næsta árs munu framlög til lykilmálaflokka halda áfram að aukast. Í því endurspeglast sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins. Framlög verða stóraukin til opinberra framkvæmda til að vega upp á móti minnkandi atvinnuvegafjárfestingu og er það liður í aðgerðum til að milda áhrif niðursveiflunnar. Hlutfallsleg útgjaldaaukning hefur verið mest í samgöngu- og fjarskiptamálum á kjörtímabilinu, 25% að raungildi. Alls munu framlög til fjárfestinga nema ríflega 78 milljörðum kr. og hafa þau aukist um 27 milljarða að raungildi frá árinu 2017. Gert er ráð fyrir að aukin opinber fjárfesting á árinu 2020 muni m.a. skapa um 600 störf fram til ársins 2021.

Á árinu 2020 er gert ráð fyrir ríflega 28 milljörðum í framlög til fjárfestinga í samgöngum og aukinn kraftur verður settur í uppbyggingu nýs Landspítala. Framlög til hans verða 8,5 milljarðar á árinu 2020 en bygging spítalans er stærsta einstaka fjárfestingarverkefni ríkisins. Meðal annarra stórra fjárfestingarverkefna má nefna kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna sem við höfum lengi beðið eftir að yrðu að veruleika. Framlög vegna smíði nýs hafrannsóknaskips eru einnig mjög mikilvæg og við tókum ákvörðun um að ráðast í það verkefni í tengslum við stór tímamót í sögu þjóðarinnar. Sömuleiðis er bygging Húss íslenskunnar.

Í þessu fjárlagafrumvarpi eru velferðar- og heilbrigðismál einnig í forgrunni. Í tengslum við gerð kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um aðgerðir til stuðnings samningunum. Heildarumfang boðaðra aðgerða á tímabili samninganna er áætlað í kringum 80 milljarðar kr. en áhrif aðgerðanna á árinu 2020 munu nema ríflega 16 milljörðum. Auk breytinga á tekjuskattskerfinu fela aðgerðir ríkisins í sér lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur og fjölmargar aðgerðir til að auðvelda íbúðarkaup. Flestar þessara aðgerða koma til framkvæmda á næsta ári. Áætlað er að útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála muni aukast um 8%, þ.e. 18 milljarða kr., en aukið atvinnuleysi kallar einnig á aukin framlög frá ríkinu. Framlög til heilbrigðismála halda áfram að vaxa og hækka milli ára um 5%, 12 milljarða kr.

Í fjárlögum ársins 2020 er einnig áhersla á umhverfismál. Þau skipa veglegan sess í áherslum ríkisstjórnarinnar. Aukin áhersla er á baráttuna gegn loftslagsvá, t.d. með nýjum grænum sköttum á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir. Þar er sérstaklega bent á að til eru aðrar umhverfisvænni lausnir sem hvatt er til að verði frekar nýttar. Einnig eru með í för aðrir jákvæðir hvatar í umhverfismálum. Gert er ráð fyrir auknum stuðningi við kaup á heimahleðslustöðvum og útleigu umhverfisvænna bifreiða, það eru tveir öflugir hvatar til að hraða orkuskiptum. Grænir skattar sem styðja við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum skapa nýjar tekjur fyrir ríkissjóð en augljóslega verður að líta til þess að slíkum sköttum er ekki ætlað að vera tekjuskapandi til frambúðar heldur að leiða fram breytinguna. Það er beinlínis markmiðið að tekjustofninn gefi eftir enda nái hið undirliggjandi markmið fram að ganga sem er bætt umhverfi, bætt loftslag, betri umgengni og betri valkostir.

Virðulegi forseti. Með fjárlagafrumvarpinu er haldið áfram á þeirri braut að bæta lífskjör og styðja við stöðugleika sem veitt getur viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Afkoma ríkissjóðs einkennist öðru fremur af yfirstandandi hagsveifluskilum. Ríkissjóður er þó í þeirri öfundsverðu stöðu að geta tekist á við þessar aðstæður án þess að bregðast þurfi við með harkalegum aðgerðum, með niðurskurði í þjónustu eða að draga úr fjárfestingum. Það væri skelfilegt að standa frammi fyrir slíku. Við erum þvert á móti í færum til þess að auka framlög til þarfra verkefna og við gerum það án þess að fara í halla.

Aukin framleiðni hagkerfisins er þáttur sem ég tel að við þurfum að veita sérstaka athygli. Þegar hægir á og við höfum stillt útgjaldastigið jafn hátt og raun ber vitni verðum við að fara að kalla eftir aukinni framleiðni, ekki bara hjá ríkinu heldur í hagkerfinu öllu. Það er frumforsenda þess að lífskjör á Íslandi verði áfram meðal þess sem best þekkist.

Aukin fjárfesting í hefðbundnum efnislegum og óefnislegum innviðum á borð við menntun og rannsóknir er grundvallarþáttur og mikilvægur hlekkur í aukinni framleiðni ásamt bættu regluverki og góðu aðgengi að alþjóðlegum mörkuðum.

Það skiptir máli að halda áfram að vinna eftir og finna gott jafnvægi á milli hinna fimm grunngilda opinberra fjármála, sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæis, samhliða því að takast á við þær áskoranir sem felast í hagstjórnarhlutverki stjórnvalda á ólíkum tíma hagsveiflunnar. Aðalatriðið er þó að lög um opinber fjármál þjóni þeim tilgangi sínum að skapa umgjörð um fjárlagagerð sem gerir stjórnvöldum kleift að koma stefnumálum sínum í framkvæmd með ábyrgum og árangursríkum hætti.

Með fjárlögum ársins 2020 sýnir ríkisstjórnin í verki áform sín um að stuðla að stöðugleika, bættum lífskjörum, áframhaldandi uppbyggingu þjónustu og fjárfestingu í innviðum landsins, þjóðinni allri til heilla. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.