152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það verður nú ekki sagt að framlagning fjárlagafrumvarps fyrir þingið komi með óvæntum hætti enda samkvæmt stjórnarskrá fyrsta mál hvers þings. En í ljósi þess sem fram hefur komið langar mig að beina spurningu til hv. formanns fjárlaganefndar, af því að ég veitti því athygli að hún hefur óskað eftir að koma hér aftur í umræðum um fundarstjórn.

Því var haldið fram að þetta hefði alltaf verið gert svona. Ég skoðaði með hvaða hætti þetta var gert í fyrra. Þá var málið í 1. umr. í þinginu 13. september. Málið var sent til umsagnar þann 16., augljóslega eftir að umræða hafði átt sér stað og málið gengið til nefndar.

Ég vil beina því til forseta að fara í gegnum þetta og leggja fyrir forsætisnefnd með hvaða hætti þetta hefur verið undanfarin ár. Og hitt sem ég vil beina til formanns fjárlaganefndar: Hvaða tímarammi var gefinn til umsagnar úr því að þetta hefur verið sent út með formlegum hætti?