Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:52]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Það er fullt af góðum hlutum að gerast. Tengivegaframlagið er hluti af fjárfestingarátakinu og við erum með ramma upp á 900 milljónir eða tæpan milljarð þannig að við erum í raun og veru með 2,4. Mín skoðun er sú að við næstu samgönguáætlun þurfi að spýta í hvað þennan pott varðar, þarna eru verkefni upp á einhverja 30–40 milljarða hringinn í kringum landið sem eru þess eðlis að þau geta ekki beðið í 10, 15 ár, við þurfum að gera það hraðar. Varðandi það að framlög falli niður 2024 og 2025, þá er það að sjálfsögðu ekki niðurskurður heldur er fjárfestingarátakið að fletjast þar út og er síðan bara að klárast, það var sem sagt milljarður og svo klárast hann og þetta hættir næsta ár. Það er því enginn niðurskurður þar og það er heldur ekki niðurskurður á næsta ári þó að það sé verið að seinka framkvæmdum sem nemur 3 milljörðum eða fjárstreymi yfir á árið 2024. Það er til að takast á við þenslu. Ég verð að segja alveg eins og er um þá umræðu hér um einhverja tiltekna ákvörðun sem hafi komið niður á einhverri einni framkvæmd — ég kannast einfaldlega ekki við það. Það er bara fullt af verkefnum sem við gætum verið að bjóða út ef ekki væri þensla og við hefðum næga fjármuni. Við erum að reyna að gera allt hvað við mögulega getum til að koma sem flestum verkefnum áfram og Reykjanesbrautin er sannarlega eitt þeirra og eitt af þeim mikilvægustu, enda þekkjum við það öll sem höfum verið að ræða það mál í dag hversu umferðarþungur sá vegkafli er, hversu hættulegur sá vegkafli er og hversu mikilvægt er að hann verði kláraður.