Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:54]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og leyfi mér að taka heils hugar undir þau áform að sameina og samnýta þessi verkefni sem sannarlega eru mörg af sama meiði þótt þau séu á mismunandi stöðum á landinu. Það er hægt að gera mjög vel og betur í mjög mörgu, enda hefur geirinn sjálfur líka kallað eftir því að horft sé til þessara mála. Það verður mjög spennandi að fylgjast með þessu og ég hvet ráðherrann til dáða í því.

En mig langar í seinni spurningu minni að horfa aðeins til téðrar landsáætlunar um uppbyggingu innviða. Þetta er nú langt og mikið heiti, landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, hvorki meira né minna, gjarnan stytt í landsáætlun. Við breytingar á Stjórnarráði Íslands voru menningarminjarnar fluttar í þetta ráðuneyti, sem ég held að hafi verið mjög gott mál, en landsáætlunin á að taka á hvoru tveggja vernd náttúru sem og menningarsögulegum minjum, þar hefur e.t.v. í gegnum tíðina borið aðeins á þeirri gagnrýni að helst til hafi hallað á menningarminjarnar þegar kemur að uppbyggingu innviða. Það eru nokkur mjög góð dæmi um það sem hefur verið tekið vel utan um og ég get nefnt Þrístapa sem dæmi. Sér ráðherrann fyrir sér, í ljósi þess að nú er málaflokkurinn í raun nær þessu skylda verkefni sem náttúruverndin er, að hægt sé að auka vægi menningarminjanna t.d. út frá landsáætlun um uppbyggingu innviða eða með öðrum hætti? Önnur spurning sem ég ætla að hnýta við er í tengslum við þörf á uppbyggingu. Víða hefur margt verið gert en við erum líka með mikla þörf á svæðum eins og t.d. Geysi, og vil ég óska ráðherra til hamingju með að skrifa undir nýja stjórnar- og verndaráætlun af því að hún er auðvitað forsenda uppbyggingarþarfar. Sér hann fyrir sér að fjármunirnir fari af landsáætlun um uppbyggingu innviða til þess sem þarf að byggja upp á svæðum eins og Geysi og Jökulsárlóni?