133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:49]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikið fagnaðarefni að Alþingi Íslendinga sé nú í þeirri stöðu í fyrsta sinn í 55 ár að á Alþingi er ekki uppi ágreiningur um að svo friðvænlegt sé í okkar heimshluta að ekki sé þörf á bandarískum herafla hér á landi. Í fyrsta sinn í 55 ár er ekki um það ágreiningur hér á Alþingi að ekki sé þörf á bandarískum herafla hér á landi. Það eru mikil forréttindi að búa í slíkum heimshluta. Það eru mikil forréttindi líka fyrir íslenska stjórnmálamenn að fá að takast á við öryggis- og varnarmálin við þessar nýju aðstæður.

Sú staðreynd að ekki er lengur ágreiningur um að ekki sé þörf á bandarísku varnarliði í landinu markar pólitísk tímamót og skapar alveg ný tækifæri. Ég er ekki alveg viss um að við séum öll búin að átta okkur á þeim möguleikum sem í þessu felast. En það eru sannarlega ný tíðindi að allir skuli vera sammála um það að ekki sé þörf fyrir sýnilegan herafla á Íslandi. Það eru ný tíðindi vegna þess að Samfylkingin hefur lengi bent á það hér á þingi og annars staðar að hingað til hafi ekki verið færð nein haldbær rök fyrir því að hér þyrftu að vera svokallaðar sýnilegar varnir í formi fjögurra herþotna. Sýnilegar varnir, sýnilegar lágmarksvarnir var þetta kallað af hálfu stjórnarliða. Og það voru aldeilis ekki allir sammála því að það væri ekki endilega þörf fyrir þennan viðbúnað hér á landi. Það voru ekki allir sammála því fyrir þremur árum þegar umræða kom upp um þetta í kjölfar tilkynninga frá bandarískum stjórnvöldum um að þau hygðust fara á brott með herafla sinn.

Það voru ekki allir sammála um þetta fyrir þremur árum og við þurfum ekki einu sinni að fara svo langt aftur því ekki er lengra síðan en í febrúar að um þetta var ágreiningur. Jafnvel í mars sl. var ágreiningur uppi um þetta. Þá var viðtal við núverandi forsætisráðherra í sjónvarpinu, þann 3. febrúar 2006, og fréttamaðurinn innleiddi viðtalið og sagði:

„Orrustuþoturnar fjórar á Keflavíkurflugvelli eru orðnar hálfgert tákn fyrir baráttu stjórnvalda fyrir vörnum landsins. Eru þær enn lykilatriði eða má hugleiða annars konar varnarfyrirkomulag?“ spyr fréttamaðurinn. Forsætisráðherra núverandi og þáverandi. utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, svarar:

„Þoturnar eru lykilatriði í okkar huga, já, og fjórar þotur eru lágmarkið held ég í huga allra eða að dómi allra þeirra sem þekkja til þessara mála.“

Fjórar þotur eru lágmarkið að dómi allra, sagði hæstv. forsætisráðherra í febrúar. Við getum líka farið lengra aftur til þess tíma þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra og fór með samskipti við bandarísk stjórnvöld vegna varnarmálanna. Þá lýsti hann því yfir að fjórar herþotur væru lágmarksviðbúnaður hér á landi og ef bandarísk stjórnvöld tækju einhliða ákvörðun um eitthvað annað jafngilti það uppsögn varnarsamningsins. Hann hafði uppi hótanir um að það jafngilti uppsögn og hann sagði að það að fækka þotunum niður í fjórar, eins og gert var á sínum tíma, væri algjört lágmark og minna væri ekki bjóðandi NATO-þjóð, sagði þáverandi forsætisráðherra og hann hafði í hótunum. Nú blasir við að þessar hótanir voru aldrei annað en innantóm orð og blekkingar.

Valur Ingimundarson sagði reyndar í viðtali á Stöð 2 15. mars að Bandaríkjamenn vissu að þetta væru blekkingar og það er komið á daginn. Þeir vissu allan tímann að þetta voru innantómar blekkingar. Nú eru þoturnar og allt herliðið farið og hvað segja ráðherrarnir þá? Þeir segja: Það er fullnægjandi að vera með varnarskuldbindingu, við þurfum ekki herafla.

Þetta segir m.a. hæstv. dómsmálaráðherra í viðtali við Morgunútvarpið nú nýverið en þar sagði hann, með leyfi forseta:

„Það var ákveðin öryggistrygging fyrir okkur fólgin í því að hafa orrustuþoturnar hér á flugvellinum og við lögðum fram kröfur um það og það náðist ekki fram að ganga og ég tel að þessi kostur sem er í boði núna sé fullnægjandi.“ Þessir menn sem sögðu fyrir nokkrum mánuðum að þetta væri algjört lágmark og það væri vá fyrir dyrum ef ekki væri hér viðbúnaður í formi fjögurra þotna.

En þessir ráðamenn blekktu ekki bara bandarísk stjórnvöld heldur blekktu þeir, og það er kannski það alvarlega, íslenskan almenning, töldu fólki trú um að það væri varnarlaust og mikil vá fyrir dyrum ef þessi viðbúnaður væri ekki á Keflavíkurflugvelli. Nú yppa þeir öxlum og segja að þetta skipti ekki máli. Þetta skiptir engu máli, segja þeir, þjóðin er ekkert varnarlaus. Hvað er að marka svona menn og hvernig getur þjóðin trúað þeim þegar mikið liggur við? Hvernig getur hún trúað þeim þegar þeir eru búnir að blekkja hana mánuðum og árum saman í þessu máli?

Þessar blekkingar eru bara til marks um það hversu illa undirbúin stjórnvöld voru í þessum viðræðum sem þau þó töldu hafa gríðarlega þýðingu fyrir varnir og öryggi Íslands. Bæði undirbúningurinn og samningatæknin er mikill áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Hún hélt illa á þessum málum. Hún beitti blekkingum og hafði í hótunum í stað þess að horfast í augu við breytta heimsmynd og mæta að samningaborðinu miklu fyrr og hafa þá um eitthvað að semja og vera með einhver samningsmarkmið og vita þá hvert þeir vildu stefna. Þeir ofmátu samningsstöðu sína og í því var auðvitað fólginn ákveðinn oflátungsháttur.

Þeir fóru líka í viðræðurnar án samningsmarkmiða. Þeir skilgreindu ekki varnarhagsmunina, þeir mættu tómhentir í viðræðurnar.

Í þriðja lagi könnuðu þeir ekki hvar við stæðum ef samningar næðust ekki, þeir ræktuðu enga valmöguleika sem er afleit staða ef menn ætla að fara í samninga. Og til að kóróna þetta allt saman sagði svo forsætisráðherra í mars að við ættum engan annan kost en að semja við Bandaríkin, við ættum engan annan kost. Hann gaf þeim með öðrum orðum sjálfdæmi og lagði málið í þeirra hendur.

Núna stöndum við hér eftir allt þetta klúður sem á undan er gengið með pólitískt samkomulag í höndunum um varnir Íslands og samning um viðskilnað hersins. Til grundvallar þessu samkomulagi liggur varnaráætlun sem er leyniplagg. Það kom fram í samningaviðræðunum að Bandaríkjamenn skilgreina varnarþarfir okkar og varnarviðbúnað. Sagt var berum orðum af hæstv. forsætisráðherra að þetta væri mál sem við hefðum ekkert vit á. Þetta gerðu þeir. Þeir skilgreina varnarþarfir okkar og varnarviðbúnað. Þeir setja upp áætlunina sem enginn fær að sjá nema forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Bandaríkjamenn vildu gera Keflavíkurstöðina að varaherstöð en hafa óheftan aðgang að landinu til æfinga eða athafna ef þeir teldu hagsmunum sínum ógnað. Ég fæ ekki betur séð en það sé nákvæmlega það sem þeir fá. Þetta kom m.a. fram í viðtali við Val Ingimundarson í mars, sem ég vitnaði til áðan, að það væri þetta sem Bandaríkjamenn vildu og það var þetta sem þáverandi forsætisráðherra benti líka á að þeir vildu og þetta fá þeir. Þeir fá aðgang að landinu til æfinga og athafna, þeir fá óheftan aðgang, þeir fá varaherstöð.

Ég ætla að lýsa því yfir strax að Samfylkingin mun ekki taka neina pólitíska ábyrgð á því samkomulagi sem gert hefur verið vegna þess að hún veit ekkert hvað í því felst. Það byggir á leynilegri varnaráætlun og við ætlum ekki að bera ábyrgð á slíkri áætlun. Samningarnir eru allir á forsendum Bandaríkjamanna og þeir eru snautlegir fyrir íslensk stjórnvöld. Bandaríkjamenn fara út að eigin ósk en eru leystir út með samningi sem felur í sér að þeir fá allt það sem þeir vilja.

Virðulegur forseti. Við stöndum uppi með þennan samning. Samfylkingin lagði ævinlega til að 7. gr. varnarsamningsins yrði virkjuð og við færum með málið inn á vettvang NATO. Það getum við enn þá gert, virðulegur forseti, og það getum við gert hvenær sem er. Við þurfum ekki að gera það núna, við getum gert það hvenær sem er. Við leggjum áherslu á að öryggismálanefndin sem gert er ráð fyrir að starfi verði skipuð hið fyrsta, hún meti hagsmuni okkar og stöðu og síðan tökum við ákvarðanir í framhaldi af því. En leyndinni verður að aflétta af varnaráætluninni, leyndinni verður að aflétta að hluta til gagnvart almenningi en skilyrðislaust gagnvart forustumönnum í öllum stjórnmálaflokkum.