135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:22]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra rakti hér ágætlega áðan þann efnahagslega bakgrunn sem hefur leitt til þeirrar stöðu í efnahagsmálum sem við búum við í dag. Það hefur verið mikil uppbygging í landinu og hagvöxtur undanfarin ár, það er mikill hiti í hagkerfinu og við erum í sjálfu sér að fást við þær afleiðingar.

Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. frummælanda, Steingrími J. Sigfússyni, að viðskiptahalli er að sönnu mikill en þó ber að hafa í huga að viðskiptahalli mælir ekki með réttu lagi vægi annars vegar skuldbindinga og hins vegar eigna. Þannig er að við höfum, Íslendingar, tekið fé að láni fé í útlöndum til að kaupa eignir. Sumar af þeim eignum og vonandi sem flestar eru arðberandi en það er rétt að hafa í huga að erlendar eignir eru metnar á bókfærðu verði í þessum samanburði þannig að væntanlega eru þar inni einhver óinnleystur hagnaður en víst er um það að viðskiptahallinn er samt sem áður óþægilega mikill.

Þessi viðskiptahalli og þróun undanfarinna ára hefur leitt af sér verðþrýsting. Við þær aðstæður er Seðlabankanum aðeins einn kostur tiltækur, þ.e. að beita stýrivaxtahækkunum í samræmi við þau meðul sem honum eru tæk. Það hefur Seðlabankinn gert. Þessar stýrivaxtahækkanir hafa hækkað vexti óverðtryggðra skuldbindinga en hafa ekki náð að slá á þensluna að neinu marki. Þetta heitir það sem hagfræðingar kalla að miðlunarkerfi peningamálastefnunnar sé ófullkomið, þ.e. stýrivaxtahækkanirnar hafa ekki þau áhrif sem til er ætlast.

Það er nákvæmlega þessi vandi sem allir hagfræðingar landsins hafa verið að tala um og það er nákvæmlega þessi vandi sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur gert að umtalsefni og hæstv. utanríkisráðherra líka. Það er þessi staðreynd að við búum við þær aðstæður að peningamálastefnan, tækið sem við höfum, hefur ekki náð með fullnægjandi hætti að taka á þessu ástandi. Það er auðvitað ástand sem við verðum að ræða með opnum huga og við verðum að leita bestu lausna. Það kann vel að vera að það séu mögulegar lausnir sem rúmist innan þess gjaldmiðils sem við búum við í dag. Það þarf að ræða, kanna og hugleiða en við búum ekki til það umhverfi um efnahagsmál að ekki megi ræða þær efnahagslegu staðreyndir sem uppi eru á borðinu. Það er með öðrum orðum verkefni stjórnmálamanna að finna faglegri umræðu sem auglýst var eftir hér áðan búning með þeim hætti að við hlustum á fyrirtækin í landinu, á aðila vinnumarkaðarins og leitum leiða til þess að tryggja hér til langframa stöðugleika í landinu. Og það er rétt að hafa í huga að það voru hagfræðingar aðila vinnumarkaðarins sem komu með þær ágætu tölur um kostnaðinn af krónunni sem hér var klifað á að hæstv. viðskiptaráðherra hefði sett fram.

Virðulegi forseti. Málflutningur vinstri grænna er nokkuð undarlegur. Það er ekki bent á eitt einasta úrræði. Eina úrræðið sem hv. frummælandi hefur bent á er að við eigum að koma í veg fyrir frekari stóriðjuframkvæmdir til að vinna bug á þenslunni. Ég ætla að benda hv. frummælanda á að í forsendum fjárlaga er ekki reiknað með neinum stóriðjuframkvæmdum. Þess vegna segi ég enn og aftur: Hver er tilgangurinn með þessari umræðu? Hvaða úrræði býður Vinstri hreyfingin – grænt framboð upp á í efnahagsmálum, hvaða lausnir? Eru það gjaldeyrishöft? Er það afturhvarf til þess tíma þegar við hindruðum fólk í að ráðstafa sínu eigin fé? Eru það lausnirnar sem verið er að bjóða upp á?