138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir málflutning hennar. Hér fer þingmaður með yfirburðaþekkingu á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og alþjóðlegum efnahagsmálum og veit hvað hún er að tala um. Mig langar í upphafi að beina þeirri áskorun til þeirra þingmanna Samfylkingar sem eru hér inni að veita málflutningi sem þessum meiri athygli í stað þess að hrakyrða það fólk oftast nær sem færir góð og gild rök fyrir máli sínu.

Við í Hreyfingunni styðjum þessa ríkisstjórn og hvetjum til þess að þeir flokkar sem standa að henni reyni að vinna betur saman. Svona málflutningur er verðugur þess að á hann sé hlustað. Hann er gagnrýnin og hann er rökfastur.

Mig langar aftur á móti að spyrja hv. þingmann hvaða leiðir aðrar hún sér færar en þær að fylgja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hvaða skoðun hún hefur á því hvert við gætum snúið okkur eða hvað við gætum gert ef við tækjum þá ákvörðun, sem ég tel að sé nauðsynleg, að senda Alþjóðagjaldeyrissjóðinn einfaldlega heim og afþakka lán hans og þjónustu. Hvert getum við snúið okkur og hvaða áhættu telur hún fylgja því að fara þá leið?