142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að lögin um 14% virðisaukaskatt voru samþykkt var auðvitað sú að afla tekna. En ákvörðun var tekin eftir að búið var að skoða málið ítarlega og vandlega. Hvort sem við tölum um 7% þrepið sem afslátt eða ekki afslátt, meðgjöf eða hvað, er staðreyndin sú að hundruð milljóna renna á ári hverju til hótel- og gistiþjónustu vegna þess að greinin selur þjónustu sína í 7% þrepi en verslar inn á 25,5% þrepi. Það er staðreynd.

Undanfarin 20 ár hefur vöxturinn verið stöðugur í ferðaþjónustu, gengið hefur fallið og styrkst. Breyting hefur orðið á virðisaukaskatti. Hann var enginn, svo varð hann 14% og svo 7%. Ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt allan tímann. Ef við viljum læra af sögunni er það ekki þetta sem skiptir öllu máli heldur er það náttúran sem við erum að selja sem er aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Þess vegna skulum við líka gæta okkar.

Við getum talað um heildarumgjörð ferðaþjónustunnar, hvert hún sé að stefna og hvert við viljum að hún stefni í þessu samhengi, þó að við ræðum hér um virðisaukaskattinn, vegna þess að þetta tengist. Við þurfum að staldra við og athuga hvernig við viljum hafa hlutina, hvaða tekjur við viljum fá af þessari grein, sem er vaxandi og hefur löngu slitið barnsskónum, hvort við viljum ekki að hún verði sjálfbær og hvort við viljum ekki gæta þess meðan við náum af henni tekjum að hún gangi ekki með of miklum átroðningi að okkar helstu náttúruperlum.