148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég spyr sérstaklega af því að eftirliti með framkvæmd fjárlaga var að mínu mati verulega ábótavant á síðasta þingi, að hluta til vegna þess að það komu kosningar en líka af því að þegar við fengum skýrslur og upplýsingar um veikleika sem voru í fjárlögunum var glímt við þá veikleika eins og þeir kæmu til kasta fjáraukalaga. Það voru aldrei neinar útskýringar, eins og á að vera samkvæmt lögum um opinber fjármál, hvað ráðherra hygðist gera til að bregðast við þeim veikleikum sem umræðan stóð um, eins og lyf og lækningavörur og málefni innflytjenda og því um líkt. Þrátt fyrir að við fengjum í fjárlagagerð í desember í fyrra sviðsmyndagreiningar sem hljóðuðu upp á þessa veikleika, sem komu fram seinna, komu fjárlögin frá starfsstjórninni samt án þessara sviðsmyndagreininga. Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið vissu af þeim veikleikum og ætluðu greinilega þinginu að laga þá, en þingið var nýbúið að afgreiða ný lög um t.d. útlendinga sem gáfu heimildir til að fara í ýmsar aðgerðir sem gætu verið kostnaðarsparandi en útskýrðu ekki á sama tíma þegar þau kynntu veikleikana að þau væru að nýta þær heimildir sem þau fengu. Ég hef áhyggjur af því að við lendum í svipuðu vanda á komandi ári með eftirlit með framkvæmd fjárlaga, af því að við erum á svo knöppum tíma og náum ekki yfirsýninni og samhenginu í fjárlagafrumvarpinu til að geta vitað fyrir fram hvað við erum að fara að skoða í kjölfarið. Þá lendum í sama vanda og í desember síðastliðinn þar sem var einhver sviðsmyndagreining sem við höfðum ekki forsendur til að meta en lærðum síðan betur á eftir því sem á leið og lentum í vanda.