Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt áhugavert og ágætt í þessu fjárlagafrumvarpi en það verður að segjast eins og er að við erum auðvitað ekki að ræða fjárlagafrumvarpið í hinni endanlegu mynd. Þar eru risastórar óvissubreytur sem gera okkur ekki kleift að taka raunverulega umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga, fyrst varðandi þær krónutöluhækkanir sem hafa verið gerðar og eru vísitölutengdar. Það er miðað við 7,7% hækkun á þessum risagjöldum, hvort sem það eru bensíngjöld eða önnur gjöld sem ríkisstjórnin leggur til og ég spyr hvort hann telji það hafa verið algerlega nauðsynlegt að fara þessa leið. Ég hef áhyggjur af þessu, ekki síst í ljósi þess að sveitarfélögin eru að útbúa sínar fjárhagsáætlanir. Mér finnst ríkið með þessu hafa verið að gefa ákveðið merki og ég er hrædd við það höfrungahlaup sem mun verða út af þessari hækkun gjalda hjá ríkisstjórninni. Ég vil fá viðbrögð ráðherra við því.

Í öðru lagi veldur ákveðnum áhyggjum þessi mikli viðskiptahalli sem er settur fram með frumvarpinu. Auðvitað eykur viðskiptahallinn, m.a. í gegnum neysluskatta, tekjur ríkissjóðs, en það er ekki sjálfbær tekjuaukning. Það er varasamt og ég óttast það. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hann telji viðskiptahallann vera svona mikinn, sérstaklega þegar uppgangur hefur aldrei verið meiri í útflutningsgreinunum. Hvernig fer þetta saman? Ég vil gjarnan fá að heyra útskýringar hæstv. ráðherra á því af hverju viðskiptahallinn er með þessum hætti þegar aldrei hefur gengið betur í útflutningsgreinunum.