Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:44]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að setja þetta mál á dagskrá, mál sem við tölum kannski allt of sjaldan um en er búið að vera hugðarefni mitt mjög lengi, allt frá því að ég var í sveitarstjórn og við settum fram markmið um að verja gott ræktunarland, landbúnaðarland. Þar af leiðandi hef ég fylgst talsvert með þessu ferli síðan. Mig minnir að það hafi verið 2021 sem þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, eða sjávarútvegs- og landbúnaðarhluti þess, setti fram og fékk samþykkt ákveðin viðmið um flokkun landsins, landbúnaðarlands og ræktunarlands, sem sveitarfélögin hafa verið að vinna eftir síðan þá.

En auðvitað voru mörg sveitarfélög kannski þá þegar byrjuð á endurskoðun aðalskipulags, kannski komin á endametrana en önnur hafa svolítið klórað sér í kollinum yfir því hvernig þau eigi að takast á við þetta. Og það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að í landstórum sveitarfélögum, sem við höfum verið að hvetja til í þessum sal að verði stofnuð með sameiningu sveitarfélaga, er þetta talsverður kostnaður. Það væri kannski svolítið á gráu svæði að sjá fyrir sér að Skipulagssjóður gæti stutt sveitarfélögin við þessa vinnu en það er eitthvað sem ég held að við ættum að skoða hérna í salnum. Við höfum verið að innheimta þetta skipulagsgjald í gegnum árin og það er bara hluti af sveitarfélögunum sem fær gjaldið beint til sín til að standa undir aðalskipulagsvinnunni. Það eru sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og á Akranesi, ef ég man rétt. Önnur fá síðan stuðning við aðalskipulagsgerðina. En það eru miklu meiri peningar sem koma inn í sjóðinn en við nýtum þarna. Þetta væru þá viðbótarútgjöld, heimild frá þinginu, en mér finnst alveg þess virði að skoða það.