Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:36]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu, það er margt rétt sem hv. þingmaður kemur inn á. Hún byrjaði fyrri spurningu sína einmitt á mikilvægi nettengingar sem er grunnurinn, sem skýrir svolítið af hverju fjarskiptin eiga svo vel heima með þessum málaflokkum, ekki bara til að gæta þess að tækifæri séu um allt land, hvort sem það er fyrir nemendur eða fyrir fyrirtæki, heldur líka fyrir uppbyggingu hátæknifyrirtækja um allt land sem er svo stór partur af nýsköpuninni. Og markmiðin eru mjög skýr, að við séum fyrsta gígabætalandið í heimi þar sem gríðarlega góð nettenging er hvar sem er á landinu. En hv. þingmaður kemur hér inn á símenntunarmiðstöðvarnar og þær eru undir öðru ráðuneyti en allt samstarf ýmissa skóla við þessar stöðvar eða þekkingarsetrin sem heyra undir mitt ráðuneyti verður til bóta og er eitthvað sem verður hægt að líta til í þessum sjóði. Ég held að hægt sé að horfa svolítið heildrænt á þetta og nýta þessa aðstöðu sem er að skapast svo víða í samfélögum, hvort sem það er til starfa óháð staðsetningu eða til náms óháð staðsetningu. Ég held að í því felist tækifæri til að gefa fleirum greiðari aðgang að háskólanámi. Við erum líka að hefja samstarf við menntavísindasvið Háskóla Íslands um bætt nám kennara og það eru aðeins umræður um það, en þar er auðvitað sífelld þróun af því að heimurinn breytist hratt, hvort sem við erum að tala um nám fyrir leikskólakennara eða háskólakennara, og þar komum við einmitt inn á þetta, að kennarar séu undirbúnir fyrir tækniöld. Það reyndist sumum skólum auðvelt en öðrum svolítið erfitt. En allt kom það í heimsfaraldri Svo erum við með skóla sem hafa undirbúið vel sitt fjarnám eins og Bifröst, sem hefur mikinn áhuga á að fara í samstarf við aðra skóla og varpa námi þeirra inn í fjarnámið sem þau hafa þróað vel og staðist gæðakröfur. Ég held að við séum alla vega búin að skapa fyrstu hvatana (Forseti hringir.) til að stíga skref í þessa átt og ég mun fylgja þessu fast eftir.