Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Já, þetta er ákveðið vandamál í framsetningu á fjárlagafrumvarpinu í heild sinni. Ef þessu væri betur skipt niður á launaliði og rekstrarliði o.s.frv. þá gætum við gert betri samanburð. Excel-skjalið sem fylgir með frumvarpinu á vefsíðu Stjórnarráðsins nær ekki að sýna skiptinguna í rekstrinum, taka t.d. launaliðinn til hliðar, þá gæti maður borið það saman við hvernig þetta var í fyrra og séð að það er verið að setja svipað í reksturinn eða alla vega að hækka rekstrarliðinn nægilega mikið til að dekka stærri árgang eins og reiknilíkanið á að taka á móti.

Hitt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um eru barnamálin. Það er 1,1 milljarður, minnir mig að það hafi verið, sem var frátekinn til að innleiða barnastefnuna sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili. Það eru ekki fjármunir sem sveitarfélögin og aðrir aðilar fá sem eiga að sjá um verkin, heldur er þetta bara kostnaðurinn við að koma þessu í gang o.s.frv. Hvar eru fjármunirnir til gera það sem barnastefnan kallar á, uppfylla skyldurnar sem falla á hina ýmsu úrræðaaðila og annað þar fram eftir götunum? Hvaða upphæðir erum við að tala um þar, gróft á litið? Ég veit að það er ekki hægt að segja það nákvæmlega, en hver er stærðargráðan?