Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:54]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér og fara yfir málaflokkana sína með okkur, nú þegar við förum í gegnum fjárlögin. Ég vildi tæpa á tvennu. Auðvitað er það þannig að þegar við ræðum um börn þá eru málefni þeirra undir allnokkrum ráðuneytum. En maður sem ber titilinn barnamálaráðherra ætti að geta svarað fyrir þá biðlista sem börn þurfa að húka á allt of lengi í íslensku samfélagi. Fyrr á árinu sagði umboðsmaður barna að staða á biðlistum eftir ýmsum greiningum væri óásættanleg og í kvöldfréttum RÚV þá, þetta var í upphafi árs, var rætt við móður barns sem hafði verið á biðlista eftir einhverfugreiningu í alls 21 mánuð. Ef við tökum þetta í samhengi okkar stjórnmálamannanna þá er þetta nánast hálft kjörtímabil, sem einhverft barn er á biðlista.

Hæstv. ráðherra hefur margoft sagt, eftir að þessar upplýsingar birtust, að brýnt sé að stytta biðlistana og að það þoli enga bið. Ég hef sagt það áður hér í þessum ræðustól að ég efast ekki um það eina mínútu að hæstv. ráðherra er að gera allt sem hann getur til að gera það. Engu að síður er staðan núna, samkvæmt nýjum tölum, að það fjölgar á öllum þessum helstu biðlistunum. Börn sem bíða greiningar hjá Geðheilsumiðstöð voru 738 í byrjun árs, eru 830 núna, biðtími 12–14 mánuðir. Það sama er á Ráðgjafar- og greiningarstöð, börn til 6 ára aldurs, sem biðu greiningar, voru 226 í byrjun árs, eru 257 núna. Þar er biðin rúmir 16 mánuðir. Á Ráðgjafar- og greiningarstöð voru 100 börn, frá 6–18 ára, að bíða eftir greiningu í byrjun árs, en eru 136 talsins núna. Staðan hefur reyndar aðeins skánað sums staðar hjá BUGL, sem er vel, en hún hefur versnað annars staðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að hann hefur talað um að brýnt sé að stytta þessa biðlista og helst eyða sem fyrst, en þetta er hins vegar þróunin (Forseti hringir.) á fáeinum mánuðum: Hvar sjáum við þess stað í fjárlagafrumvarpinu að þessir biðlistar muni styttast á næstunni? Það væri gott að fá einhver sannfærandi svör um það.