Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:01]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála því þegar hv. þingmaður talar um að menn hafi ekki verið nægilega framsýnir í því að þróa kerfin okkar. Þess vegna erum við að stokka þau upp núna. Þess vegna erum við akkúrat að stokka upp kerfið, hvernig við nálgumst þjónustu við börn. En ég er ósammála hv. þingmanni að stjórnvöld fyrri ára, fyrir þann tíma sem ég settist í ráðherrastól, hefðu getað séð það fyrir að slík vaxandi eftirspurn yrði eftir þriðja stigs úrræðum í íslensku samfélagi eins og raun ber vitni. Eftirspurnin eftir þriðja stigs þjónustu við börn á Íslandi hefur vaxið margfalt og ég vil meina að kerfisvandinn sé sá að við höfum ekki staðið okkur á fyrsta stiginu, og því þurfum við að breyta. Við höfum ekki staðið okkur í því að þjónusta kerfin okkar betur á fyrstu stigum.

Á sama tíma vil ég segja að við erum að gera það núna. Með nýrri löggjöf erum við að tryggja samtal til að geta gripið inn á fyrri stigum sem á að létta á seinna. Við erum líka í samtali við háskólann um að efla nám hvað það snertir, ekki bara nám til þjónustu á þriðja stigi heldur líka nám sem miðar að því að grípa fyrr inn í, áður en til greiningar kemur, með nýrri farsældardiplómu sem byrjar nú í haust, í samningi við ráðuneytið. Það eru á annað hundrað manns að hefja nám í þeirri farsældardiplómu, allt til að miða að því að draga úr á fyrri stigum. Á sama tíma þurfum við auðvitað að hvetja til þess að fleiri mennti sig.

Ég held að það sé ekki eingöngu fjármagn sem veldur þessu heldur tel ég að þetta snúist líka um að við sem erum að vinna með þessi mál dagsdaglega tölum upp störf þar sem unnið er með börnum. Það eru einfaldlega mikilvægustu störfin í íslensku samfélagi að vinna með börnum þessa lands. Það eru börnin sem munu bera hagkerfið hér uppi þegar fjárlög verða rædd eftir 30 ár. Við þurfum að tala (Forseti hringir.) upp þessa starfsemi, tala um hversu spennandi það er, skapa spennandi starfsumhverfi (Forseti hringir.) og við erum við að byrja að gera það og við sjáum það á farsældardiplómunni að aðsókn er að aukast. Við þurfum að gera þetta í fleiri málaflokkum og ég er sannfærður um að okkur tekst það. En það gerist því miður ekki á einu ári.