131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:10]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ljóst er að aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki skapað þann frið og þá lausn sem menn væntu í þessari erfiðu kjaradeilu sem var. Kennurum finnst þessi lagasetning ekkert annað en óvirðing við sig sem hún og er. Hæstv. ráðherra menntamála hefur ekki tekið upp hanskann fyrir kennara og frekar talað niður til þeirra ef eitthvað er.

Aðgerðirnar í dag finnast mér vera táknræn mótmæli kennara sem hafa skapast í samræðum óánægðra kennara, vonsvikinna kennara sem eru í sjokki eftir átta vikna verkfall og lagasetninguna á laugardaginn. Þar að auki, virðulegi forseti, virðast mér — og það er kannski alvarlegast — kennarar vera nokkurs konar leiksoppar í kjaradeilu ríkis og sveitarfélaga þar sem forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu hafa ekki staðið sig í kjarabaráttu sveitarfélaga við ríkisvaldið. Það er kannski vegna pólitískra tengsla forustumannanna við ríkisstjórn sem það hefur ekki tekist. (Gripið fram í: ... borgarstjórnin í Reykjavík ...)

Það kemur stundum upp í huga minn, virðulegi forseti, að þetta verkfall hafi hálfpartinn verið notað í þeirri baráttu. Ég á þá ósk heitasta að eðlilegt, jafngott og öflugt skólastarf hefjist aftur á morgun. Ég er líka þess fullviss að fjölmargir foreldrar hafa skilning á því hvernig málið snýr við kennurum í dag eftir þá lagasetningu sem gerð var, með ágætum markmiðum um viðmið við framhaldsskólakennara en með hand- og fótjárnum. Það er skiljanlegt að þeir sem hafa verið í átta vikna verkfalli í kjarabaráttu séu í hálfgerðu sjokki eftir það sem hér gerðist á laugardaginn.