141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðu hans og þakka þann stuðning sem hann sýnir við þá breytingartillögu sem liggur fyrir. Rétt er að rifja það upp fyrir umræðuna að þessi breytingartillaga lá líka fyrir á síðasta þingi þegar þingsályktunartillagan sem er nú til umræðu um rannsókn á fyrri einkavæðingunni var til umræðu í þinginu.

Það virðist vera svo að vilji þeirra aðila sem leggja fram þessa þingsályktunartillögu um að farið verði í að rannsaka 10–13 ára gömul mál, þ.e. einkavæðinguna fyrri, lúti ekki að því að rannsaka það sem skiptir máli í dag eins og þingmaðurinn fór svo réttilega yfir, að rannsaka hvað fór úrskeiðis í seinni einkavæðingunni og jafnframt að læra af því og vita hvernig staða bankanna raunverulega er, eins og ég hef farið yfir í máli mínu í dag varðandi þau áhersluatriði sem ég legg til í nefndarálitinu sem fylgir breytingartillögu minni.

Ég fagna því ef samstaða mundi nást í þinginu um að farið yrði fyrst í einkavæðinguna sem ég legg til, þ.e. einkavæðinguna hina síðari, og síðan í kjölfarið yrði farið í það ferli að rannsaka enn á ný einkavæðinguna hina fyrri vegna þess að segja má að nokkurs konar söguleg gögn komi þar að. Það er mikið til af gögnum því að margoft hefur verið farið í þær rannsóknir sem verið er að leggja til. Ég fagna því stuðningi við þessa breytingartillögu, virðulegi forseti, og vona að hún nái fram að ganga.