150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það eru fleiri sem skilja ekki pólitíkina, það kemur mér aftur ekkert á óvart. Hv. þingmaður virðist ekki skilja hvað kostnaðar- og ábatagreining er. Ef hún væri kannski fyrir framan hv. þingmann myndi verðmæti þannig greiningar hjálpa til við að útskýra það. Það má taka borgarlínuverkefnið og samgönguverkefni á höfuðborgarsvæðinu sem dæmi. Þau eru byggð út frá kostnaðar- og ábatagreiningu, greiningin hjálpar til við að velja hvaða leið er hagkvæmust, hvaða leið er best fyrir fólk, ekki bara kostnaðarlega heldur líka lífskjaralega séð, eins og ég talaði um í velsældarhagkerfinu. Við erum þá með skýra möguleika fyrir framan okkur sem við fáum að velja úr. Þar kemur síðan pólitíkin. Ekki með því að giska. Ég er ekki þar.

Varðandi brauðmolakenninguna og grunnframfærsluna myndi grunnframfærsla og útgreiðsla á persónuafslætti vissulega gagnast þeim hópi sem hefur komið einna verst út á undanförnum árum, þ.e. ungu fólki. Samkvæmt tölum sem koma fram á Tekjusögunni er augljóst að það er ungt fólk sem hefur síst fengið kjarabætur og lífsgæðabætur á undanförnum árum. Þar hefur ungt fólk tapað lífsgæðum umfram aðra hópa, tapað. Ekki bara rétt haft við öðrum hópum heldur tapað. Það gæti munað gríðarlega miklu fyrir ungt fólk að fá þá styrkingu sem felst í útgreiðslu persónuafsláttar. Það er gríðarlegur styrkur fyrir menntakerfið og það er gríðarlegur styrkur í því að þurfa ekki að byrja lífið í skuld.