138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér hefur verið rætt lengi um Icesave og það hefur komið fram að nefndir þingsins hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að ræða málið út í hörgul, hvorki efnahags- og skattanefnd né fjárlaganefnd. Einnig hefur komið fram í fjölmiðlum undanfarið að þrýstingurinn á málið, þ.e. þessir þvinguðu leikir á skákborðinu, er horfinn. Menn hafa leitað að því hver kúgaði Íslendinga í raun og þá kom í ljós að hver vísaði á annan. Nú segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að hann ætli bara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, hvort sem Alþingi samþykkir þetta eða ekki, Norðmenn ætla að láta okkur fá lánið, hvort sem við samþykkjum Icesave eða ekki, og mér sýnist að allur þrýstingur sé farinn. Mig langar til þess í umræðunni, frú forseti, að spyrja hvort ekki megi bara fresta þessu máli, svo sem fram á vor, og spyrja t.d. fjármálaráðherra sem er hér hvort ekki megi semja við Breta upp á nýtt í ljósi þess að þrýstingurinn er farinn, og þá á allt öðrum forsendum.