140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ósakhæfir fangar á Íslandi og aðbúnaður þeirra fyrr og nú.

[11:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. frummælanda Álfheiði Ingadóttur fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Hér er um að ræða alveg sérstaklega viðkvæman málaflokk sem er, má segja, á landamærum annars vegar réttarvörslukerfisins og hins vegar heilbrigðiskerfisins. Ég tala um viðkvæman málaflokk sérstaklega vegna þess að þarna er um að ræða hóp sjúklinga sem virðist að jafnaði eiga sér fáa málsvara, það eru fáir sem sýna þessum hópi áhuga og taka upp málstað þeirra og hagsmuni. Áreiðanlega er það hluti af skýringu á því hvers vegna jafnseint var brugðist við hér á landi og þessum málum komið í þokkalegt horf, og rakið hefur verið. Ég held að við stofnun réttargeðdeildarinnar á Sogni hafi mikið framfaraskref verið stigið og miðað við þær upplýsingar sem ég hef hefur árangurinn af starfi þar verið býsna góður. Starfsemin hefur skilað miklum árangri.

Í þessum efnum, eins og svo mörgum öðrum, verða menn auðvitað stöðugt að vera með augun opin fyrir því hvað hægt er að gera betur, bæði faglega og fjárhagslega, en án þess að ég ætli að ræða staðsetninguna sérstaklega, hún kemur til umræðu á eftir, vil ég segja að ákvarðanir í þessum efnum verða menn að taka af yfirvegun, á málefnalegum forsendum og af varfærni vegna þess um hversu viðkvæman málaflokk er að ræða.