141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég flyt breytingartillögu er lýtur að því að samhliða rannsókn á einkavæðingu bankanna árið 2002, sem þingsályktunartillaga liggur fyrir um, verði síðari einkavæðing bankanna rannsökuð, sú sem átti sér stað á vordögum 2009.

Það er dæmalaust að hlusta á þann málflutning framsögumanns þessa nefndarálits að ekki sé um að ræða samhliða mál. Þetta eru algjörlega samkynja mál. Eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals eru málin samhliða og fyrri einkavæðingunni var ekki lokið fyrr en eftir seinni einkavæðinguna.

Það er líka dæmalaust að heyra stjórnarliða tala um að einkavæðing ríkisbankanna, Búnaðarbankans og Landsbankans, hafi leitt til bankahruns. Það er dæmalaust að við þingmenn þurfum að sitja undir þeim málflutningi eina ferðina enn. Ég hef bent á, og aðilar úti í samfélaginu eru sammála því, að bankahrunið varð vegna þess að Íslendingar þurftu að taka upp ófullburða EES-tillögur er lúta að frjálsu flæði fjármagns, þ.e. einum hluta fjórfrelsisákvæðis EES-samningsins.

Við skulum átta okkur á því að EES-samningurinn var lögfestur hér á landi árið 1994. Alþýðuflokksmenn fóru þá fram með miklum gassagangi og kröfðust þess að það yrði gert. Einkavæðing bankanna kom svo til vegna þrýstings vegna hinna nýju fjármálareglna sem samdar voru í Evrópusambandinu og okkur bar að taka upp.

Eins og fram hefur komið í andsvörum var Íbúðalánasjóður ekki einkavæddur, hann er stærsta bankastofnunin sem enn er starfandi hér á landi. Íslandsbanki var ekki einkavæddur, var fram að hruni einkabanki í höndum einkaaðila og hið sama má segja um sparisjóðina. Að halda því fram að einkavæðingin sem átti sér stað 2003 hafi leitt til bankahrunsins er til þess fallið að slá ryki í augu fólks. En þetta er málflutningur sem hefur verið látinn viðgangast hér hin síðari ár, hefur verið keyrður áfram af vinstri mönnum vegna þess að það hentar þeim pólitískt og á einhvern hátt er erfitt að snúa þeim spuna til baka. Sú staðreynd að Íslandsbanki var aldrei ríkisbanki segir okkur að það var ekki einkavæðingunni að kenna að hér varð bankahrun. Íslandsbanki féll meira að segja fyrstur, einkabankinn féll fyrstur. Þá fór af stað atburðarás sem við munum öll eftir í íslensku samfélagi í byrjun október 2008 — vissulega er nokkuð erfitt að rifja það upp því að það hafði svo mikil áhrif á okkar ágæta samfélag.

Áður en ég fer ofan í breytingartillöguna og það nefndarálit sem liggur fyrir frá mér sem flutningsmanni 1. minni hluta vil ég geta þess að þetta mál er flutt í annað sinn. Samkomulag hafði náðst um það í þinginu í fyrra og það var fullbúið til afgreiðslu, þ.e. að koma málum í þann farveg að rannsóknarnefnd yrði stofnuð. Við framsóknarmenn ætlum að styðja tillögu varðandi fyrri einkavæðingu bankanna í ljósi þess að þingmenn styðji þá breytingartillögu sem ég legg fram um að seinni einkavæðingin verði rannsökuð samhliða.

Mig langar til að grípa ofan í fylgiskjal I í nefndaráliti frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem fjallað er um þá brýnu þörf sem meiri hlutinn telur vera fyrir því að fara af stað með þessa rannsókn nú og varpa þá aðeins ljósi á þá ítarlegu rannsókn sem þegar hefur farið fram á fyrri einkavæðingunni. Í nefndarálitinu kemur fram að rannsóknarnefnd Alþingis hafi fjallað nokkuð um einkavæðingu bankanna í skýrslu sinni og að áður hafi Ríkisendurskoðun fjallað um málið í skýrslu um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ríkisendurskoðanda var falið að fara yfir einkavæðinguna á árum áður og síðan fjallaði rannsóknarnefnd Alþingis líka um málið.

Ekki nóg með það, virðulegur forseti, það liggur líka fyrir skýrsla sem ber heitið: Sala ríkisins á eignarhlutum í fyrirtækjum og sala fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á eignarhlutum í fyrirtækjum. Þessi skýrsla var tekin saman fyrir nokkrum mánuðum að beiðni forsætisráðuneytisins og hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar var farið yfir umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, álit umboðsmanns Alþingis og skýrslu Ríkisendurskoðunar sem varða málið og lágu þá þegar fyrir og samanburður gerður á því hvernig málum af þessu tagi væri háttað í öðrum löndum.

Virðulegi forseti. Það kom ekkert út úr þessari skýrslu annað en það að nokkuð eðlilega hefði verið staðið að fyrri einkavæðingunni. En ríkisstjórnin getur ekki hætt. Ef einhvers staðar er hægt að þyrla upp ryki er rykinu þyrlað upp. Ríkisstjórnin vinnur í ófriði en ekki í friði og það lýsir því best að hæstv. forsætisráðherra hafi beðið um þessa skýrslu sem ég nefndi áðan. En það sem kom út úr þeirri skýrslu var ekki nógu krassandi þannig að nú skal farið af stað með heila rannsóknarnefnd til að fara yfir það hvað gerðist fyrir 10 til 12 árum. Þetta er dásamleg forgangsröðun hjá ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir miklu atvinnuleysi, langtum meira atvinnuleysi en við Íslendingar eigum að venjast, litlum hagvexti og er með öll mál í frosti sem snúa að íslensku samfélagi. Það er ekki er verið að hugsa um atvinnuuppbyggingu. Nei, það skal farið í gömlu kumlin og haldið áfram að grafa þar til eitthvað bitastætt kemur út úr því. Hv. þm. Lúðvík Geirsson sagði á Alþingi Íslendinga að það væri þjóðþrifamál að rannsaka enn á ný einkavæðingu bankanna 2002–2003. Þeim er vorkunn sem skortir mat og atvinnu ef þetta er þjóðþrifamál.

Virðulegi forseti. Þessu stöndum við frammi fyrir og þetta er augljóslega það sem meiri hlutinn vill fara með í gegnum þingið, gerviþarfir knýja á um að beina umræðunni að þessu máli á meðan stóru málin eru ekki rædd, en ég ætla svo sannarlega að vona að þetta fari hér í gegn. Það vekur athygli mína að ekki var lögð þung áhersla á það á síðasta þingi að koma málinu í gegn en ákvæði í þingsályktunartillögunni hljóðaði upp á að rannsókn ætti að vera lokið í síðasta lagi 15. mars 2013, á kosningaári. Meiri hlutinn tók ekki þá áhættu að vera búinn að hleypa af stokkunum heilli þriggja manna rannsóknarnefnd með tilheyrandi kostnaði sem væri að skila af sér rétt fyrir kosningar og svo kæmi kannski ekkert út úr málinu.

Málið var því svæft á milli þinga, lagt fyrir aftur, og nú á umræddri rannsókn að ljúka þegar nýtt kjörtímabil verður gengið í garð. Mér finnst því afar brýnt að sú breytingartillaga sem ég legg hér fyrir, að einkavæðing bankanna hin síðari verði rannsökuð samhliða, nái fram að ganga. Það var þó starfandi einkavæðingarnefnd og málið var vel undirbúið hér á árum áður þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir. Því var ekki að heilsa í hið síðara skipti á vordögum 2009 þegar þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, einkavæddi bankana á einni nóttu. Þá var engin einkavæðingarnefnd, þá var enginn undirbúningur. Þetta var geðþóttaákvörðun þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Þarna voru þessir tveir bankar afhentir erlendum vogunarsjóðum á silfurfati á einni nóttu. Mér er sagt að Landsbankinn hafi verið svo skuldugur og skítugur að vogunarsjóðirnir hafi ekki viljað sjá hann og því hafi þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tekið þá ákvörðun þessa sömu nótt að ríkið mundi taka hann í fangið.

Íslandsbanki var aldrei ríkisbanki og var ekki einkavæddur á sínum tíma. En hann hefur bæst á þessa keðju vegna þess að hann var kominn í eigu ríkisins eftir hrunið og þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, einkavæddi einkabankann sem aldrei var í ríkiseigu. Já, þetta er kaldhæðnislegt. Það er ekki nema von að ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn þeirra finni breytingartillögu minni allt til foráttu. Einkavæðing bankanna hin síðari þolir ekki dagsljósið. Ef fresta á því og þessi breytingartillaga mín verður felld hér í þinginu mun ég þann sama dag leggja fram tillögu er lýtur að því að fram fari sjálfstæð rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari. Það er ekkert annað að gera, þessi mál eru samsíða og þau verður að ræða samhliða, þau eru eðlisskyld. Ef maður segir A í máli verður maður líka að segja B. Ríkisstjórnarflokkarnir ætla bara að segja A í þessu máli og ekki B. Þeir ætla ekki að klára það sem máli skiptir og er algjörlega órannsakað. Það er einkavæðing bankanna hin síðari.

Pólitískur hráskinnaleikur heitir það þegar stjórnarandstaða fyrri ára ætlar að ná sér niðri á ríkisstjórn fyrri ára með því að rannsaka gjörðir hennar, en þegar rannsaka á gjörðir þeirrar sömu stjórnarandstöðu sem nú heitir ríkisstjórn má ekki gera neitt. Þetta er ekki fyrsta málið sem vinstri flokkarnir svokölluðu gera kröfu um að verði rannsakað. Sem dæmi má nefna rannsókn á Íbúðalánasjóði. Það átti bara að rannsaka það tímabil þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru í ríkisstjórn. Með harðfylgi tókst okkur í stjórnarandstöðunni að koma því í kring með breytingartillögu að ferill Íbúðalánasjóðs skyldi allur rannsakaður frá upphafi. Ég minni á það, virðulegi forseti, að með harmkvælum tókst að koma því í gegn að tími Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, yrði líka rannsakaður.

Það var ekkert auðvelt að koma því inn í þingið, það var ekkert auðvelt að koma því til afgreiðslu að ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu það. Umræður stóðu fram á nótt til að fá það í gegn að þáttur hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var þáverandi félagsmálaráðherra, yrði líka rannsakaður. En það hafðist. Á sömu rökum legg ég þessa breytingartillögu fram varðandi rannsókn bankanna.

Þó að Samfylkingin hafi setið í ríkisstjórn frá 2007 og Vinstri grænir frá 2009 vilja þessir flokkar lítið vita af fortíð sinni. Hæstv. forsætisráðherra virðist á engan hátt muna eftir veru sinni í félagsmálaráðuneytinu í kringum 1990 til 2000, á því árabili. En sem betur fer eiga sér fleiri fortíð í þinginu en fyrrverandi þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og það liggur fyrir.

Ég ætla líka aðeins að koma inn á það að Landsbankinn var tekinn í fangið eftir hrunið. Ekki er nóg með að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hafi einkavætt bankana á einni nóttu heldur tók hann Landsbankann í fangið og skuldbatt nýja Landsbankann til að taka skuldabréf vegna Icesave-samninganna upp á 280 milljarða sem nú stefnir í að verði erfitt að greiða. Þetta skuldabréf samþykkti hann að greiða út í erlendum gjaldeyri og nú gengur maður undir mann að útvega annaðhvort nýtt lán eða endurfjármögnun á þessu láni. Fingraför þáverandi fjármálaráðherra eru því víða í hinni seinni einkavæðingu bankanna. Hann er rannsóknarefni einn út af fyrir sig sá gjörningur að skuldbinda ríkissjóð með þeim hætti að taka milligjöfina varðandi Icesave-samningana inn í íslenskan efnahag í ríkisbanka sem Landsbankinn er. Það verður því mikið að rannsaka þegar þessi mál komast á dagskrá og verða samþykkt.

Við skulum þá ekki tala um það hvernig sú rannsókn hefði farið hefðu þingmenn Framsóknarflokksins ekki staðið alla leið með landsmönnum í Icesave-málinu sem í tvígang var vísað til þjóðaratkvæðis og landsmenn felldu svo eftirminnilega. Ég minni í því sambandi á ráðherraábyrgð þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

Þá ætla ég að fara í nefndarálit mitt sem ég flyt með þingsályktunartillögunni. Það hefur yfirskriftina: „Nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.“ Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á síðasta þingi var álit 1. minni hluta svohljóðandi:

„Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, segir að forseti Alþingis skipi rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um. Gert er að skilyrði í ákvæðinu að um sé að ræða mikilvæg mál sem almenning varða. 1. minni hluti telur að rannsókn á síðara einkavæðingarferli bankanna sé ekki síður mikilvæg, jafnvel mikilvægari en fyrri einkavæðing bankanna og sé mikilvægt mál sem almenning varðar. Sú almenna skoðun er útbreidd að því valdi sem rannsóknarnefndum Alþingis er falið skuli beitt varlega og að stjórnmálum skuli ekki blandað saman við rannsókn á mikilvægum málum sem almenning varða sem tengjast meðferð opinbers valds með einhverjum hætti. Gjarnan eru slík úrræði notuð til að rannsaka meintar misfellur eða brot sem eiga sér stað í stjórnsýslunni og eru álitin það mikilvæg að þau kalli á sérstaka rannsókn. Ekki undir neinum kringumstæðum á að nota þetta vald til að ná sér niður á pólitískum andstæðingum við ríkisstjórnarskipti. Það er ekki í anda laga nr. 68/2011, um rannsóknarnefndir, að haga sér með slíkum hætti.

Því leggur 1. minni hluti til breytingartillögu um að samhliða rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands fari fram rannsókn og gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar. Einnig fari fram rannsókn á sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.), NBI hf. (nú Landsbankans hf.) og Íslandsbanka hf. Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni. Nefndin beri einkavæðingu íslensku bankanna, slita- og skilameðferð saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum og leggi fram tillögur til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni. Nefndin leggi mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna, slita- og skilameðferð hafði fyrir íslenskt samfélag.

Á 138. löggjafarþingi var lögð fram breytingartillaga (þskj. 1525, 705. mál), við tillögu til þingsályktunar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 þessa efnis.““

Vísað er í fylgiskjal I með þessu en það var flutt af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og var breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Við framsóknarmenn höfum því allt frá upphafi, allt frá því að rannsóknarnefnd Alþingis gaf út sína skýrslu, lagt á það áherslu að einkavæðingin síðari yrði jafnframt rannsökuð og þarna er vísað í það.

„Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem nefndarálit þetta á við eru settar fram rannsóknarspurningar sem rannsóknarnefndinni er ætlað að svara. Eiga þessar rannsóknarspurningar vel við einkavæðingu bankanna hinna síðari, svo sem:

Hvaða markmið, stefna og viðmið lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna, hverjir báru ábyrgð á þeirri stefnumótun og að hve miklu leyti var stefnunni fylgt við framkvæmd einkavæðingar bankanna?

Hvernig fór söluferlið fram? Hvaða aðferðafræði var beitt, hvernig var hún ákveðin, hvernig var háttað eftirliti með söluferlinu og hverjum bar að hafa eftirlit með því að söluferlið væri í samræmi við markaða stefnu um einkavæðingu bankanna? Var leitað ráða hjá erlendum sérfræðingum varðandi stefnumótun og framkvæmd einkavæðingarinnar? Gerð verði nákvæm málsatvikalýsing varðandi söluferlið.

Öll rök hníga í þá átt að fyrri einkavæðing bankanna verði ekki rannsökuð nema seinni einkavæðing bankanna verði rannsökuð samhliða, sérstaklega í ljósi þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá 23. maí 2007 var stefnt að því að „tryggja að fjármálastarfsemi gæti vaxið áfram hér á landi og að fjármálafyrirtækin gætu sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sæju sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar sínar hérlendis.“

Í 5. kafla skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á 138. löggjafarþingi (þskj. 1501, 705. mál), kemur fram að þessari stefnu yfirvalda hafi ekki verið breytt opinberlega fyrir hrun bankanna í október 2008. Seinni einkavæðing bankanna var framkvæmd án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins síðla árs 2009. Þess skal getið að Glitnir var einkarekinn allt fram að hruni eða þar til ríkið tók hann yfir og hann varð að ríkisbanka. Á haustdögum 2010 var tekin sú ákvörðun að umsvifalaust voru lánardrottnum Kaupþings og Glitnis afhentir nýju bankarnir, sem stofnaðir voru á grunni hinna gjaldþrota gömlu banka og heita í dag Íslandsbanki og Arion banki. Meiri hluti Landsbankans er enn í eigu ríkisins. Var þessi ákvörðun tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs. Því leggur 1. minni hluti til breytingartillögu um að síðari einkavæðing bankanna verði rannsökuð samhliða þeirri fyrri.

Fyrsti minni hluti ítrekar þetta álit og leggur til svofellda breytingu:

1. Á eftir 3. mgr. komi tvær nýjar málsgreinar er orðist svo:

Samhliða framangreindu fjalli nefndin um og geri opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.

Nefndin fjalli einnig um sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings banka hf. og NBI hf. (nú Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (nú Arion banka hf.). Þannig skal upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum, hvernig kaupin voru fjármögnuð af kaupendum og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni.

2. Á eftir orðinu „bankanna“ í 4. mgr. komi: og slita- og skilameðferð þeirra.

3. Á eftir orðinu „bankanna“ í 5. mgr. komi: og slita- og skilameðferðar þeirra.

Alþingi, 16. október 2012.

Vigdís Hauksdóttir.“

Ég hef hér farið yfir nefndarálitið með breytingartillögunum. Ég hef farið vel yfir rökin sem hníga í þá átt að farið verði í rannsókn á hinni fyrri og hinni síðari einkavæðingu bankanna. Hin síðari einkavæðing bankanna er algjörlega órannsökuð og ekkert liggur til grundvallar þeim ákvörðunum sem voru teknar. Verði rannsóknarnefndin sem nefnd er í þessari breytingartillögu sett á stofn, sem ég vonast til vegna þess að það er vilji þingsins að þetta verði rannsakað, gengur sú nefnd að miklum gögnum. Langtum minni vinna fer í það — nefndin getur tekið að sér sögulegar skýringar, allar þær skýrslur sem liggja fyrir, álit frá Ríkisendurskoðanda og annað — vinnan liggur fyrst og fremst í því að rannsaka hina síðari einkavæðingu.

Ég lýk hér máli mínu og geri það að tillögu minni að þingmenn samþykki þær breytingartillögur sem ég hef farið yfir hér.