145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að Íbúðalánasjóði, sem á að vera samfélagsbanki, þá hafa verið mikil vandræði út af samkeppnislöggjöfinni. Við erum sömuleiðis í vanda varðandi Ríkisútvarpið, svo að dæmi sé tekið. Þetta veit hv. þingmaður og hann hlustaði ekki á ræðu mína, annars hefði hann ekki lagt út af því að ég hefði verið að tala um Landsbankann og Búnaðarbankann á níunda áratugnum. Ég var aldrei að því, ég var að tala um Íbúðalánasjóð. Það er ótrúlega góð regla, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að hlusta á ræðu og fara síðan í andsvar en ekki þvælast frammi á gangi, ryðjast í andsvar og halda að einhver hafi sagt einhverja hluti sem hann hefur aldrei sagt.

Ég skal ræða við hv. þingmann um bankamál hvar og hvenær sem er, en bið hann um að koma ekki í andsvar við ræðu sem ég hef ekki haldið. Og ef einhver er methafi í misheppnuðum málflutningi þá er það hv. þm. Ögmundur Jónasson af þeirri einföldu ástæðu að hann nennir ekki að hlusta á ræður þeirra sem hann vill eiga orðaskipti við.

Ég vek athygli á því að hann taldi að það væri frábært ef við ættum Landssímann. Við erum með bullandi samkeppni á símamarkaði. Þessi nostalgía sem hann og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon eru haldnir — þeir voru svo stórkostlegir sparisjóðirnir fyrir nokkrum áratugum, við eigum að fara aftur þangað. Kæru vinir, hv. þingmenn, það er bara ekki hægt að leika sér í tímavél, það er bara ekki þannig, við erum í nútímanum. Það dugar ekki að halda mærðarræður um hve allt var stórkostlegt þegar Landssíminn var með Póstinum og að við ættum að stefna þangað aftur. Það er ekki hægt. Við erum í nútímanum og framtíðin kemur fyrr en seinna.

Nú er alveg sjálfsagt og eðlilegt að ræða það, og ég skal fara yfir það, hvernig við getum lágmarkað ábyrgð skattgreiðenda og hvernig við getum bætt hag heimilanna, en það dugar ekki að vera í nostalgíu og það dugar ekki að koma hér í ræðustól og í andsvör við ímyndaðar ræður þeirra sem hér halda ræður, virðulegi forseti.