150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:08]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg bara fram, í töflunni á bls. 8 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, þær miklu breytingar sem hafa orðið frá því að þessi ríkisstjórn tók til starfa. Ég bið hv. þingmann að horfa til þess tímabils alls, ekki eingöngu þessa fjárlagafrumvarps þegar við ræðum um þróun útgjalda. Hann mætti miklu frekar gagnrýna okkur fyrir það að þau séu jafnvel of mikil. Þar eru raunhækkanir til margra málaflokka raktar. Ég ætla ekkert að þylja það upp fyrir hv. þingmann, hann nefnir sérstaklega málefni öryrkja og fatlaðs fólks en þar er t.d. 14 milljarða aukning á þessu tímabili. Við erum að staðfesta skattalækkanir í fjárlagafrumvarpinu sem koma sér vel fyrir tekjulága. Þingmaðurinn minntist ekki á það. En mig langar að spyrja hv. þingmann út í nefndarálit hans þar sem hann er að draga í land frá fyrri ræðum um önnur fjárlagafrumvörp og fjármálaáætlun þar sem hann talar um skatt á ferðaþjónustu Hann heldur sig samt enn við það að leggja eigi gjöld á ferðaþjónustu. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða gjöld eru það og hve há?