132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:09]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Umræður um málefni starfsmannaleigna hafa áður farið fram á vettvangi Alþingis og ég hef ítrekað lýst því yfir að frumvarp yrði lagt fram á þessu yfirstandandi þingi. Í samræmi við það mæli ég fyrir frumvarpi til laga um starfsmannaleigur.

Ég hef ítrekað upplýst hvernig málið hefur verið unnið á vettvangi félagsmálaráðuneytisins og segja má að það hafi gerst í nokkrum stórum skrefum. Í fyrsta lagi aflaði ég mér upplýsinga frá vinnumálaráðherrum í öðrum aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um það hvernig löggjöf þar er háttað að því er varðar starfsmannaleigur.

Í öðru lagi skipaði ég samráðshóp með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og félagsmálaráðuneytisins til að fjalla um möguleika á setningu íslenskrar löggjafar um starfsmannaleigur.

Í þriðja lagi óskaði ég eftir því við Rannsóknarsetur vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að unnin yrði greinargerð um starfsmannaleigur og mögulegar leiðir í lagasetningu hér á landi. Sú greinargerð lá fyrir nú 6. október síðastliðinn.

Öll þessi vinna gerði það að verkum að í aðdraganda samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins þann 15. nóvember síðastliðinn um áframhaldandi gildi kjarasamninga náðist ákveðin sátt milli aðila um þau atriði er fram komu í frumvarpinu og ég mæli nú fyrir á Alþingi. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt var frumvarp til laga um starfsmannaleigur stór þáttur í því að mikilvægt samkomulag náðist milli aðila vinnumarkaðarins.

Í frumvarpi þessu, hæstv. forseti, eru enn fremur lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en eins og hv. þingmönnum er kunnugt er nauðsynlegt að réttarstaða að þessu leyti sé skýr og ótvíræð. Því hef ég lagt á það mikla áherslu að menn líti til allra þátta sem hér geta haft áhrif. Ég hef m.a. lagt á það áherslu að skattyfirvöld og lögregluyfirvöld tryggi að þau tæki sem við höfum þegar í höndum í íslenskri löggjöf hvað varðar skyldur og eftirlit þeirra sem starfa á vinnumarkaði hér á landi séu nýtt að fullu. Þessu frumvarpi er ætlað að færa okkur enn fleiri verkfæri en á engan hátt ætlað að draga úr þeim sem fyrir eru. Það vil ég að sé ljóst í umræðu um þessi mál.

Ég vil einnig taka það skýrt fram í upphafi að þessu frumvarpi er ekki ætlað að breyta þeirri meginreglu sem ríkir á vinnumarkaði okkar um að starfsmenn séu ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitenda. Hér á landi ríkir ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum eins og ég hef margítrekað bent á á Alþingi og er honum ætlað að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Ég get fullyrt það hér að það er sameiginlegur vilji minn, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að ótímabundnir ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Þetta frumvarp breytir þar engu um.

Ég höfða því nú sem fyrr til ábyrgðar fyrirtækjanna í landinu um að virða framangreinda meginreglu og aðrar leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Við höfum haft gott skipulag á okkar vinnumarkaði sem við viljum halda í og ég treysti því að fyrirtækin vinni stöðugt í því að halda í þá góðu kosti sem okkar kerfi býr yfir. Það hagnast enginn á því að brjóta gildandi kjarasamninga eða að fara gegn lögum þegar til lengri tíma er litið. Það kemur alltaf að skuldadögum. Það vita þeir sem reynsluna hafa. Við höfum búið við visst samfélagslegt jafnvægi hér á landi. Fólk hefur unnið saman og við höfum ekki búið við jafnstéttskipt þjóðfélag og þekkist víða annars staðar, m.a. í sumum Evrópulöndum, sem betur fer vil ég segja. Þetta hefur að mínu mati verið einn af meginkostum samfélags okkar og hugsanlega ein af ástæðum þess hve mörg öflug fyrirtæki hafa sprottið upp og haslað sér völl bæði hér innan lands og á alþjóðlegum vettvangi. Við höfum skapað þeim grundvöllinn og nú ber okkur að standa vörð um það að alþjóðavæðingin hafi ekki þau áhrif hér á Íslandi að við missum stjórn á því sem við erum ánægð með, því sem við viljum standa vörð um. Ég er þess fullviss að það frumvarp sem hér er lagt fram er lóð á vogarskálarnar til að tryggja okkur samfélag þar sem við virðum manngildið og alla þá sem leggja til samfélagsins. Við virðum kjarasamninga sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð saman um og við virðum réttindi sem margir hafa barist fyrir áratugum og jafnvel öldum saman. Við virðum samningsréttinn. Við virðum velferðarsamfélagið og viðurkennum um leið að öflugt atvinnulíf er grundvöllur þessa alls. Allt verður þetta að spila saman og umræðan um samfélagslega ábyrgð á sér eðlilega stað samhliða aukinni alþjóðavæðingu. Það kemur fram í umræðu um allan heim og þessir þættir endurspeglast á fundum samstarfsráðherra minna í öðrum Evrópulöndum og á alþjóðlegum vettvangi svo sem á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

En víkjum þá að því frumvarpi til laga um starfsmannaleigur sem hér er til umræðu. Fyrir liggur að ekki hefur verið áður í gildi sérstök löggjöf um starfsmannaleigur hér á landi og er því hér um nýmæli að ræða.

Í frumvarpinu er lagt til að hver sá sem ætlar að veita þjónustu starfsmannaleigu á Íslandi tilkynni um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar átta virkum dögum áður en starfsemin hefst í fyrsta skipti hér á landi. Enn fremur er starfsmannaleigum ætlað að hafa hér sérstakan fulltrúa. Vinnumálastofnun er síðan ætlað að halda skrá yfir þá sem tilkynnt hafa um starfsemi sína. Öðrum starfsmannaleigum er ekki heimilt að stunda hér starfsemi. Jafnframt er þeim óheimilt að starfa hér láti þær hjá líða að tilkynna um fulltrúa sína.

Gert er ráð fyrir því að lögð verði tilkynningarskylda á starfsmannaleigur er lýtur að starfsmönnum þeirra. Ber starfsmannaleigu að láta Vinnumálastofnun í té yfirlit yfir starfsmenn sína ásamt nánar tilgreindum upplýsingum. Tilgangur þessa er einkum sá að gera Vinnumálastofnun kleift að hafa yfirsýn yfir stöðuna á innlendum vinnumarkaði að því er varðar starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Á þetta hefur því miður skort og að mínu mati er mjög brýnt að bæta úr þessu atriði.

Framangreindar skyldur hvíla jafnt á starfsmannaleigum er hafa staðfestu hér á landi og þeim erlendu starfsmannaleigum er veita hér þjónustu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Almenn ákvæði um starfsemi starfsmannaleigna er jafnframt að finna í frumvarpinu. Þar á meðal er lagt til að starfsmannaleigum verði óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar. Þetta er annað mjög mikilvægt atriði að mínu mati.

Enn fremur er gert ráð fyrir að starfsmannaleigu sé óheimilt að leigja starfsmenn til fyrirtækis sem hann hefur áður starfað hjá fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því að ráðningarsambandi hans við það fyrirtæki lauk. Með þessu er stefnt að því að koma í veg fyrir að fyrirtæki segi upp starfsmönnum sínum til þess eins að ráða þá óbeint aftur gegnum starfsmannaleigu. Tel ég þetta mikilvægt atriði, enda er meginreglan á vinnumarkaði hér á landi sú að gerðir séu ótímabundnir ráðningarsamningar beint við vinnuveitendur eins og ég nefndi í upphafi. Jafnframt tel ég mikilvægt í ljósi framangreindrar meginreglu í ráðningum að starfsmannaleigu verði óheimilt að takmarka rétt starfsmanna sinna sem leigðir eru til notendafyrirtækja til að stofna síðar til ráðningarsambanda við það fyrirtæki.

Vinnumálastofnun er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Reynsla undanfarinna mánaða hefur fært mér heim sanninn um að nauðsynlegt er að kveða skýrt á um slíkt eftirlit, því miður verð ég að segja. Ég vona svo sannarlega að fyrirtæki sjái að sér þannig að ekki komi til þess að Vinnumálastofnun þurfi að beita þeim úrræðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að henni verði falin. Meðal annars er gert ráð fyrir að unnt verði að stöðva starfsemi fyrirtækja tímabundið sé ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar. Ég tel þetta reyndar mikilvægt tæki til að tryggja virka framkvæmd frumvarpsins eða öllu heldur laganna þegar þar verður komið en ítreka það að ég vona einfaldlega að til þessa þurfi ekki að koma.

Hæstv. forseti. Eftir að hafa farið ítarlega yfir stöðu mála þótti samhliða setningu sérstakra laga um starfsmannaleigur jafnframt nauðsynlegt að breyta öðrum gildandi lögum. Annars vegar er þar um að ræða breytingu á lögum nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið hér á landi og hins vegar breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga. Gætt hefur ákveðins misskilnings við túlkun laga um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja og er þeim breytingum sem fram koma í frumvarpi þessu ætlað að gera þau skýrari. Lagt er til að heiti laganna verði breytt þannig að skýrt sé að þau eigi einkum við um starfskjör starfsmanna erlendra fyrirtækja en að önnur lög sem gilda hér á land hverju sinni geti átt við um réttarstöðu þeirra að öðru leyti. Þá eru sett fram ákvæði sem ætlað er að taka af tvímæli um hvað telst til lágmarkskjara samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum.

Ekki er í frumvarpi þessu verið að leggja til breytingar á aðlögunarreglum vegna nýju aðildarríkjanna að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heldur eingöngu verið að skýra þær.

Þá er lagt til að óheimilt verði að veita atvinnuleyfi vegna starfa hjá starfsmannaleigum. Þykir útgáfa atvinnuleyfa vegna starfa hjá starfsmannaleigum ekki samræmast tilgangi laganna um atvinnuréttindi útlendinga þar sem starfsmenn starfsmannaleigna eru að öllu jöfnu leigðir tímabundið á milli ólíkra fyrirtækja og jafnvel starfsgreina. Jafnframt er verið að undirstrika þá stefnu stjórnvalda að útlendingar sem fá atvinnuleyfi verði ráðnir með hefðbundnum ráðningum.

Hæstv. forseti. Markmið frumvarps þess sem ég mæli nú fyrir er að bæta úr ástandi sem virðist hafa ríkt á íslenskum vinnumarkaði að minnsta kosti undanfarin missiri. Mér er fulljóst að einhverjir hefðu viljað ganga lengra í vernd starfsmanna starfsmannaleigna en öðrum finnst nóg um og jafnvel gott betur. Það er mitt mat að skynsamlega hafi verið á málum haldið við smíði frumvarps þessa og hér sé hæfilega langt gengið að svo komnu máli til að tryggja að frumvarpið þjóni tilgangi sínum og móti starfsmannaleigum starfsramma til að fara eftir. Frumvarp þetta er afrakstur mikillar vinnu með mjög góðum atbeina fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka fyrir þá góðu vinnu. Félagsmálaráðuneytið leggur í þessum málum sem öðrum mikla áherslu á að vinna að lausnum í samvinnu við hagsmunaaðila og þetta frumvarp er dæmi um slíka vinnu.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember síðastliðnum til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga kemur fram að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir að lög um starfsmannaleigur verði samþykkt fyrir jólahlé Alþingis. Í ljósi þess, hæstv. forseti, legg ég ríka áherslu á að unnt verði að samþykkja frumvarp það sem hér er til umræðu fyrir jólahlé þingsins og vænti þess að hv. þingmenn séu mér sammála um mikilvægi þessa máls.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.