133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vatnstjón á mannvirkjum á Keflavíkurvelli.

[13:35]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kemur með mál inn á hv. Alþingi sem gerðist á varnarsvæðinu þar sem hús stórskemmdust af völdum frostskemmda. Það verður að segjast og taka undir það að hér áttu sér náttúrlega stað mikil mannleg mistök. (ÖS: En hjá hverjum?) Það skiptir kannski ekki máli hver er sökudólgurinn í þessu efni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Skaðinn er skeður. (ÖS: Tæknileg mistök?) Þetta eru mistök og auðvitað verður að taka á þessum málum eins og hæstv. utanríkisráðherra greindi frá áðan.

Það má segja að tjónið hefði getað orðið miklu meira en varð. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að heita vatnið var á húsunum en kaldavatnslagnirnar brustu. Það verður líka að segja til varnar að núna í nóvembermánuði hafa verið óvenjumiklar frosthörkur. Þær hafa ekki verið svona miklar um margra ára bil og það er nú þannig með okkur Íslendinga að við viljum oft gleyma því hvað veturinn getur borið snemma að. Ég held að við eigum ekki að vera að hengja einn eða neinn varðandi þessi mál. Þarna urðu mannleg mistök og á þeim verður tekið. Þannig er það nú.