149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

49. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir áhugaverða umræðu og ég ætla að reyna að svara þeim athugasemdum sem fram komu eftir fremsta megni á þeim tíma sem mér er skammtaður til þess. Ég byrja kannski bara í tímaröð.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir og aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á það að fram hafa komið lyf á markaðnum sem hafi nákvæmlega sömu virkni, menn noti sér þessi efni sem eru í kannabisjurtinni, eða í lyfjahampsjurtinni eins og við köllum hana, og skili sömu niðurstöðum. Ég vil svara því til að landlæknir Bretlands og landlæknir Bandaríkjanna hafa stuðst við það að ótvírætt notagildi sé af því að notast við lyfjahamp. Þar að auki langar mig að bæta við, og er eitthvað sem ég mun vitna talsvert í á þeim örfáu mínútum sem ég hef, að í bréfi landlæknis árið 2009 til Ólafs Skorrdals heitins kemur fram að ekki sé hægt að útiloka notagildi lyfjahamps sérstaklega í alvarlegum undantekningartilfellum, eins og hann vísaði til, þegar önnur lyf hafa ekki virkað. Þetta er eitthvað sem landlæknir nefnir. Og ég ætla að notast við þetta bréf frá honum líka til að svara öðrum athugasemdum.

Ég vil einnig geta þess að hjá Evrópusambandinu stendur til að koma með tillögu um að hvetja aðildarríki Evrópusambandsins til að setja frekari fjármuni í rannsóknir á lyfjahampi vegna þess að slíkar rannsóknir hafa verið undirfjármagnaðar og að þar séu ýmsar leiðir færar til að skoða betur notagildi þessarar jurtar og þetta sé eitthvað sem Evrópusambandið er að taka fyrir aðallega vegna þess að það vill auka valmöguleika fólks í Evrópusambandinu til að velja sér heilbrigðisþjónustu.

Komið hefur fram í máli hv. þingmanna að það sé enginn ávinningur af notkun lyfjahamps. Ég hef vísað í að bæði landlæknir Bretlands sem og fyrrverandi landlæknir Bandaríkjanna eru á öðru máli. Og sömuleiðis var fyrrverandi landlæknir Íslands líka á öðru máli, en einmitt í bréfi landlæknis til Ólafs Skorrdals, sem ég vísaði í, kemur fram að það sé of mikið sagt hjá yfirlækninum — hér er verið, með leyfi forseta, að vísa til skoðanaskipta milli Þórarins Tyrfingssonar, fyrrverandi yfirlæknis á Vogi, SÁÁ, og Ólafs Skorrdals, þar sem Þórarinn Tyrfingsson hélt því fram að ekki væri sýnt fram á neinn ávinning af lyfjafræðilegri notkun lyfjahamps. Og landlæknir á þeim tíma segir, með leyfi forseta:

„Það er of mikið sagt hjá yfirlækninum að ekkert hafi komið út úr tilraunum með lyf sem örva kannabisviðtaka, þótt væntingar hafi verið meiri í byrjun þessara tilrauna. Verið er að kanna margvíslegt annað hugsanlegt notagildi fyrir lyf af þessu tagi en þetta er spennandi svið sem gefur vonir um gagnleg lyf í framtíðinni.

[…]

Vert er að geta rannsókna sem hafa komið fram á undanförnum árum um tengsl kannabisnotkunar og meiri háttar geðsjúkdóma með geðrofseinkennum,“ — þetta er það sem leiðir mig líka að athugasemdum sem komu frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni — „bæði við bráð skammvinn geðrofseinkenni, en þó ekki síst geðklofaeinkenna. Geðklofasýki er alvarlegur geðsjúkdómur sem setur mark á allan æviferil sjúklings. Algengi geðklofasýki er lágt eða um 1% og er merkilega stöðugt bæði milli landa og yfir tíma. Þekkt yfirlitsgrein Moore og félaga sem birtist í Lancet frá 2007 bendir til þess að áhætta fólks að fá geðklofasýki aukist ef það notar kannabis. Odds ratio að fá geðklofasýki miðað við þá sem ekki nota kannabis er 1.41 í þessari rannsókn, en vikmörk 1,20–1,65, sem þýðir að fólk hafi um 40% auknar líkur miðað við fólk almennt til að fá geðklofa ef það hefur neytt kannabis (þ. e. nálægt því að líkurnar aukast úr 1% í 1,4%) og að munurinn er tölfræðilega marktækur.“ — Þetta er alveg rétt. — „Meiri líkur voru á geðklofa hjá fólki sem notaði kannabis í miklu magni. Gegn orsakatengslum talar hins vegar að þrátt fyrir almenna aukningu á notkun kannabisefna helst tíðni geðklofa, eins og áður sagði, svipuð og var á þeim tíma sem kannabisnotkun var óalgeng. Ráðgjafarnefndin breska,“ — sem er skipuð úrvalssérfræðingum frá Bretlandi um vímuefni og hættuleika þeirra — „benti í skýrslu sinni frá 2008 á ,,líklega en veika tengingu milli geðrofseinkenna, þ.á.m. geðklofa, og kannabisnotkunar.““

Þetta hefur endurtekið verði tekið fram að þarna er um mjög veika tengingu að ræða og það hefur aldrei verið sýnt fram á þetta nákvæma orsakasamhengi, þ.e. ekki hefur verið sýnt fram á það að það sé bara svoleiðis að þeir sem hafi geðklofa séu líklegri til þess að leita í kannabisefni til að slá á einkenni sjúkdóma sinna, eða það að kannabisefni auki líkurnar á geðklofa. Þetta orsakasamhengi hefur ekki verið sannað og raunar hafa ýmsar rannsóknir komið fram sem afsanna þetta.

Bretland er einmitt að fara að leyfa lyfjahamp vegna þess að aðgengi barna, sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson minntist á, með flogaveiki af ákveðnum lyfjum sem gátu slegið á einkenni þeirra var skert. Þar á meðal og þess vegna hefur landlæknir Bretlands líka talað um þessa eiginleika.

Ég verð að lýsa furðu minni á orðum hv. þm. Þórunnar Egilsdóttur hvað varðar það að fráhvörf frá kannabisefnum séu hörðustu fráhvörfin. Ég veit ekki betur en að fráhvörf frá áfengissýki geti valdið dauða en ég hef ekki heyrt af því að það gildi um kannabis. Ég á mjög erfitt með að trúa þeirri staðhæfingu og sömuleiðis að fráhvörf frá kannabisnotkun séu verri en fráhvörf frá ópíumnotkun. Ég á mjög erfitt með að trúa því og hlakka til að heyra hvaðan þær staðhæfingar koma vegna þess að ég fæ ekki fyrir nokkurn mun skilið hvernig það geti komið fram.

Hv. þingmenn hafa endurtekið vísað í það að aukið aðgengi leiði til aukinnar notkunar. Nú vil ég ekki rugla of mikið umræðuna um afglæpavæðingu gagnvart þessari sérstöku tillögu, en mig langar þó að benda á að notkun ungmenna á kannabisefnum er hvergi lægri í Evrópu en í Hollandi þar sem aðgengi verður að teljast mjög mikið. Þó að notkun á kannabisefnum hafi aukist lítillega þegar aðgengið var meira að þá var það talsvert minna en í nágrannaríkjum Hollands þar sem kannabisefni eru einmitt ekki leyfð. Ég vildi bara koma þessu að.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir talaði um að með tillögunni væri verið að leggja til að við hættum að horfa til meðferðar eða tilmæla lækna eða ráðlegginga þeirra vegna þess að ég talaði um sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga. Nei, ég er bara að ítreka sjálfsákvörðunarrétt sjúklinga og rétt þeirra til að velja sér sína eigin meðferð. Læknar hafa vissulega mjög leiðbeinandi gildi hvað það varðar, en við ráðum samt sem áður öll okkar eigin læknismeðferð.

Ég heyrði líka minnst á „gateway theory“, þ.e. að notkun kannabisefna leiði til harðari efna. Þá er því til að svara að landlæknir telur þar um mjög veika tengingu að ræða, það kemur fram í bréfi hans til Ólafs Skorrdals, og að miklu sterkari tenging sé m.a. á milli fyrsta vímuefnis einstaklinga sem lenda í neyslu, sem er venjulega áfengi eða tóbak, það séu miklu sterkari tengsl þar á milli, að fólk byrji að nota áfengi eða tóbak sem leiði svo út í harðari vímuefni. Því að við skulum ekki gleyma því að áfengi er líka vímuefni.

Svo langar mig í lokin að minnast á endurteknar spurningar frá hv. þingmanni hvað varðar ræktun hér á landi og hvers vegna það kemur fram í þingsályktunartillögunni. Í fyrsta lagi vil ég greina frá ákveðnum umhverfissjónarmiðum í því tilefni. Við þurfum ekki endilega flytja þetta langt að, við getum bara ræktað þetta hér. Við höfum fordæmi fyrir því. Að öðru marki vil ég taka fram að hér er ekki verið að leggja til að fólki verði gert kleift eða leyft að rækta lyfjahamp heima hjá sér, heldur er heilbrigðisráðherra falið fullt vald til þess að ákveða hvernig reglugerð í kringum þessi mál skuli háttað. Í þingsályktunartillögunni er einmitt mjög skýrt lagt til að ráðherra leiti til þeirra þjóða sem hafa haft góða reynslu af lögleiðingu lyfjahamps og komist að því hvernig slíkum málum er háttað hjá þeim. Mér þykir óþarfi að við flytjum inn lyfjahamp langar leiðir að. Við getum alveg ræktað hann sjálf, en ráðherra getur líka ákveðið það sjálfur að ekki skuli fara fram ræktun hér á landi. En mér þætti þó alveg ágætt að hafa í huga að ef óþarfi er að flytja eitthvað inn þá þurfum við ekkert endilega að flytja það inn. Ef við getum búið það til sjálf þá hljóta umhverfissjónarmið að mæla með því.