151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

störf þingsins.

[11:31]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Sú ógn sem stafar að samfélaginu vegna Covid-faraldursins ristir víða djúpt. Alþingi, sveitarstjórnir, heimili og fyrirtæki hafa þurft að bregðast við nýjum áskorunum. Á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er yfir 20%, hefur lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta skipt miklu máli ásamt fleiri lausnum. Aukin framlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, milljarðaverkefni á Keflavíkurflugvelli, aukin hlutafjárveiting Isavia og stórauknar framkvæmdir á flugvellinum á komandi árum vega þungt fyrir Suðurnes. Allt eru þetta mikilvægar viðspyrnuaðgerðir.

Herjólfur er hornsteinn samgangna fyrir Vestmannaeyinga. Ný rafknúin ferja hefur lækkað siglingakostnað á leiðinni til Landeyja og Þorlákshafnar. Aukin tíðni ferða og betri nýting Landeyjahafnar hefur verið mikil lyftistöng fyrir íbúa og ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. En eftir þær hremmingar sem rekstur Herjólfs hefur gengið í gegnum á þessu ári, eins og mörg önnur fyrirtæki í almannaþjónustu, að viðbættum fleiri áföllum, er rekstrarstaðan afar þröng. Eftir að stjórn Herjólfs hefur skorið niður rekstur fyrirtækisins inn að beini, ríkið hefur komið inn með stuðning vegna Covid og leggur á næsta ári til 140 milljónir vegna fækkunar farþega um 100.000, þarf samt að hækka fargjöld með ferjunni um 25%, og 33% fyrir bíla, virðulegur forseti. Þar þarf ríkið að bæta við 80 millj. kr. svo að 3–5% vísitöluhækkun dugi í rekstrinum. Hækkunin nemur 2.200 kr. fyrir hvern mann á bíl báðar leiðir. Ef þessi gjaldhækkun Herjólfs yrði sett sem veggjald í Ártúnsbrekku ættu hjón í Árbænum að greiða 220 kr. virkan dag á leið í vinnu ef þau ættu að sitja við sama borð og hjón í Eyjum sem fara einu sinni í mánuði með ferjunni, eða 52.800 kr. á ári.

Virðulegi forseti. Það er val að búa í Vestmannaeyjum en það er líka skylda samfélagsins að mismuna ekki íbúum þegar kemur að því að nýta samgönguleiðir samfélagsins. Stuðningur ríkisins við rekstur Herjólfs stendur ekki undir þeim skyldum við Vestmannaeyinga og úr því verður að bæta.